Hert höft munu stuðla að veikingu krónunnar

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, gagnrýnir harðlega þær breytingar sem meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar lagði í gær fram í nýju frumvarpi um hert gjaldeyrishöft. Í umfjöllun Morgunblaðsins í dag segir Vilhjálmur þetta enn eitt skrefið í þeirri sneypuför sem gjaldeyrishöftin eru, enda kalli þau á sífellt harðari aðgerðir. Aðgerðirnar setji allt það sem Seðlabankinn hefur hugsað sér, t.d. með þátttöku lífeyrissjóða eða annarra, í fullkomið uppnám.

Í umfjöllun Fréttablaðsins í dag segir Vilhjálmur ennfremur. "Þetta er líka ákveðin einkunn yfir því tali sem hefur verið í gangi af hálfu ríkisstjórnar og Seðlabankans að sannfæra fólk um að hlutirnir séu að lagast. Síðan kemur allt í einu upp neyðarástand sem verður til þess að þarf að herða gjaldeyrishöftin, og það eru skilaboð um að vandinn sé ekkert að minnka heldur vaxa. Trúverðugleiki ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans rýrnar enn og ekki var úr háum söðli að detta fyrir," segir Vilhjálmur og áréttar að breytingarnar setji vinnu allra slitastjórna í uppnám. Ef Seðlabankinn hafi haft áhyggjur af peningum sem þar séu hafi átt að ræða þau mál við slitastjórnirnar og kanna aðrar leiðir en lagasetningu.

Í Morgunblaðinu segir Vilhjálmur að vandamálið sem höftunum er ætlað að leysa sé alltaf til staðar og fari frekar vaxandi en hitt. "Á meðan höftin eru þá skapar það samfelldan þrýsting til lækkunar krónunnar, vegna þess að það vill enginn eiga hér krónur nema til þess að greiða kostnað eða borga niður skuldir. Eina leiðin til þess að gengið myndi hækka væri í gegnum innstreymi á erlendu fjármagni með fjárfestingum og stækkandi útflutningsgrunni." Það sé hins vegar ekki að gerast, að sögn Vilhjálms.

Ísland í bítið á Bylgjunni ræddi einnig í morgun áform um herðingu gjaldeyrishafta þar sem m.a. var rætt við Vilhjálm en hlusta má á umfjöllun þáttarins á Vísi - slóð á upptökuna er hér að neðan. Þar sagði Vilhjálmur m.a. gjaldeyrishöftin leysa engan vanda, heldur fresta honum. Því lengur - því stærri verði vandinn. Gengi krónunnar muni sífellt fara lækkandi á meðan höftin séu í gildi og því sé brýnt að losa um höftin.

Sjá nánar:

Fréttablaðið 13. mars 2012

Morgunblaðið 13. mars 2012

Ísland í bítið - smelltu til að hlusta

Umfjöllun RÚV  í 10 fréttum sjónvarps - 12. mars 2012