Heimsókn Eftirlitsstofnunar EFTA
Sendinefnd frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) heimsótti nýverið Hús atvinnulífsins. Í sendinefndinni voru meðal annars stjórnarmennirnir Helga Jónsdóttir og Frank J. Büchel ásamt yfirlögfræðingi ESA, Carsten Zatschler.
Halldór Benjamín Þorbergsson hélt erindi fyrir hönd Samtaka atvinnulífsins og Helga Jónsdóttir fyrir hönd ESA auk þess sem aðildarsamtök SA kynntu starfsemi sína og snertifleti við EES-samninginn.
Mikil ánægja var með fundinn en hann var sá fyrsti hjá sendinefndinni sem mun á næstu dögum eiga samtal við helstu ráðuneyti landsins og stjórnsýslustofnanir.
Á fundinum kom skýrlega í ljós hversu mikilvægur EES-samningurinn er íslensku atvinnulífi. EES-samningurinn tryggir Íslandi, Noregi og Liechtenstein aðgang að innri markaði Evrópusambandsins en 68% af útflutningstekjum Íslendinga koma frá ríkjum EES-svæðisins. Frjáls för vöru og þjónustu inn á markaði EES-svæðisins er ein af forsendum samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja.
Helga Jónsdóttir lýsti mikilvægi EES-samningsins fyrir smáríki í erindi sínu með dæmi frá Liechtenstein en atvinnurekendur lýstu því yfir á fundi með ESA að hægt væri að loka stærstum hluta fyrirtækja þar í landi strax ef Liechtenstein tæki ákvörðun um að ganga úr EES-samstarfinu.
Á fundinum flutti Lárus M.K. Ólafsson, lögfræðingur hjá SVÞ erindi um samskipti samtakanna við ESA, meðal annars í tengslum við fimm mál sem samtökin hafa haft aðkomu að á undanförnum árum.
Á fundinum lýstu báðir aðilar yfir miklum áhuga á frekara samstarfi enda afar þýðingarmikið fyrir íslenskt atvinnulíf að tryggja rétta framfylgni EES-samningsins.