Hefur stýrivaxtabotninum verið náð?
Seðlabankinn tilkynnti í morgun að meginvöxtum bankans yrði haldið óbreyttum um sinn. Vextir á sjö daga bundnum innlánum verða því áfram 0,75% – í takt við væntingar greiningaraðila. Samhliða vaxtaákvörðun birti Seðlabankinn nýja þjóðhagsspá sem gefur til kynna að efnahagssamdrátturinn á seinasta ári hafi verið nokkru minni en spáð var í nóvember (eða -7,7% í stað -8,5%). Skýrist munurinn helst af minni samdrætti í einkaneyslu og fjárfestingu en áður var talið.
Horfur þessa árs hafa versnað hvað varðar utanríkisviðskipti. Nú er gert ráð fyrir að framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar verði neikvætt, viðskiptakjör rýrni og viðskiptajöfnuðurinn hverfi. Engu að síður er gert ráð fyrir að hagvöxtur í ár aukist lítillega og verði 2,5% í stað 2,3%. Munar þar mestu um væntingar um meiri vöxt einkaneyslu og sterkari fjárfestingu, hvort sem litið er til fjárfestingar atvinnuvega, íbúðarhúsnæðis eða hins opinbera. Gerir ný spá bankans ráð fyrir því að þorri þjóðarinnar muni hafa verið bólusettur um mitt ár og að svo til óbreytt fyrirkomulag verði á landamærum þangað til.
Verðbólgan rýfur efri vikmörk í fyrsta sinn í sjö ár
Verðbólga hefur tekið við sér að undanförnu eftir áralangt tímabil innan vikmarka. Hún er nú í fyrsta sinn síðan árið 2013 komin upp fyrir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans. Stendur ársverðbólgan nú í 4,3%. Lengri tíma verðbólguvæntingar hafa þó haldist nokkuð stöðugar og eru enn nálægt markmiði Seðlabankans sem hefur gefið færi á lausara taumhaldi peningastefnunnar en ella. Spá bankans gerir nú ráð fyrir að verðbólgan verði um 3,9% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en að hún muni hjaðna nokkuð hratt eftir því sem áhrif gengisveikingar krónunnar fjara út. Þá er enn gert ráð fyrir töluverðum slaka í þjóðarbúinu á árinu. Til viðbótar hefur gengi krónunnar styrkst nokkuð að undanförnu sem ætti að hafa frekari áhrif til minnkunar verðbólgu.
Í seinustu fundargerð peningastefnunefndar kom fram að hætta væri á að frekari lækkun vaxta gæti grafið undan kjölfestu verðbólguvæntinga og trúverðugleika peningastefnunnar. Einnig væri möguleiki á því að lækkunin gæti ratað á ranga staði og örvað þann hluta hagkerfisins sem ekki byggi við slaka. Þá gæti hún sett frekari þrýsting á húsnæðisverð, sem hefur hækkað nokkuð að undanförnu á meðan dregið hefur úr íbúðafjárfestingu. Það er því ljóst að nefndin hafði nokkrar áhyggjur af mögulegum neikvæðum áhrifum frekari vaxtalækkana í nóvember.
Miðað við yfirlýsingu nefndarinnar nú í morgun má gera ráð fyrir að ef verðbólgan reynist þrálátari en væntingar gefa til kynna séu líkur á því að nefndin beiti þeim tækjum sem hún hefur yfir að ráða, hvort sem það væri vaxtatækið eða inngrip á gjaldeyris- eða skuldabréfamarkaði, til að draga verðbólgu aftur niður í markmið svo kjölfestu verðbólguvæntinga verði ekki ógnað. Því má ætla að frekar séu líkur á vaxtahækkunum en lækkunum á næstu misserum og að stýrivaxtabotninum hafi verið náð að sinni. Hagvaxtarhorfur eru þó enn hóflegar og atvinnuleysi enn mikið. Því er ekki ólíklegt að vextir Seðlabankans haldist óbreyttir fram á haust, en líkt og fyrr mun farsóttin og efnahagsleg áhrif hennar þurfa að leiða það í ljós.