Harkaleg vinnubrögð Samkeppnisstofnunar

Undanfarin misseri hafa Samtök atvinnulífsins gert ýmsar athugasemdir við samkeppnislöggjöfina og við starfshætti samkeppnisyfirvalda. Við síðustu endurskoðun samkeppnislaga gerðu SA og önnur samtök í atvinnulífinu fjölmargar athugasemdir sem ekki var tekið tillit til. Einkum hafa SA gagnrýnt tilhneigingu samkeppnisyfirvalda til að ógilda samruna fyrirtækja ef hann telst leiða til markaðsráðandi stöðu, og hafa samtökin raunar líst þeirri skoðun að afnema beri þessa heimild Samkeppnisstofnunar. Ljóst er að dæmi eru um að slíkir úrskurðir hafi valdið miklu tjóni á íslensku efnahagslífi, m.a. hvað snertir hagræðingu á fjármálamarkaði.

SA hafa haldið því fram að hlutverk samkeppnisyfirvalda sé fyrst og fremst það að beita sér gegn misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Að sjálfsögðu verður Samkeppnisstofnun að hafa tæki til að sinna því hlutverki sínu. Þá er við hæfi að stofnunin kanni hvort fótur sé fyrir ábendingum á borð við þær sem henni hafa borist vegna olíufélaganna. Það er ekkert síður hagsmunamál olíufélaganna en annarra. Nýlegar sektarákvarðanir stofnunarinnar og vinnubrögð hennar við nýlegar húsleitir hjá þeim olíufélögunum vekja hins vegar upp alvarlegar spurningar.

Í nýlegum sektarákvörðunum Samkeppnisstofnunar var um svo háar fjársektir að ræða að umhugsunarefni er hvort of geyst hafi þar verið farið. Í umræddum húsleitaraðgerðum voru starfsmenn og stjórnendur gerðir brottrækir af skrifstofum sínum meðan á aðgerðunum stóð, frumgögn tekin út úr fyrirtækjunum og vinnubrögðin öll með ólíkindum. Það eru sjálfsögð mannréttindi að viðkomandi starfsmenn og stjórnendur geti verið viðstaddir leit á þeirra skrifstofu, t.d. vegna umgengni um hugsanleg persónuleg gögn, auk þess sem fyrir liggur að t.d. innan Evrópusambandsins er óheimilt að hafa á brott frumgögn við slíkar húsleitir.

Nýlegar sektarákvarðanir Samkeppnisstofnunar og húsleitir hennar hjá olíufélögunum vekja því upp alvarlegar spurningar um hvort endurskoða þurfi heimildir stofnunarinnar eða afmarka þær betur með vinnureglum.

Ari Edwald.