Hagsmunamál
Ríkið er í dag meirihlutaeigandi í íslensku bankakerfi, ekki í fyrsta skipti. Gjaldþrot Íslandsbanka árið 1930 lagði grunninn að bankakerfi í ríkiseigu næstu 70 árin þar á eftir. Eignarhald ríkisins í bönkunum hefur meðal annars verið rökstutt með því að það dragi úr áhættu á fjármálakreppu. Það er þó mikil einföldun því ríkisbankar hafa einnig orðið gjaldþrota og hefur þá jafnan reynst lítil trygging í opinberu eignarhaldi. Það er engin tilviljun að fæstir vestrænir bankar eru í ríkiseigu.
Það er ekki hlutverk ríkisins að standa í áhættusömum bankarekstri, heldur að tryggja eðlilega umgjörð með virku eftirliti, góðu regluverki og hóflegri skattheimtu. Sú skoðun virðist einnig algeng að opinbert eignarhald tryggi hagstæðari vaxtakjör. Því er þó öfugt farið. Sú stöðnun og rekstraróhagræði sem fylgir opinberu eignarhaldi eykur kostnað sem skilar sér í lakari vaxtakjörum til viðskiptavina. Sé ætlunin að bæta vaxtakjör heimila er nær að líta til skattheimtu. Frá árinu 2011 hafa bankarnir greitt þrenns konar sérskatta samfara öðrum almennum sköttum. Þó slík skattheimta þekkist víða er hún átta sinnum meiri að meðaltali á Íslandi. Tekjur ríkissjóðs af sérsköttum bankanna, um 15 milljarðar króna á ári, fjármagna nú almenn útgjöld ríkisins - enda kostnaður vegna fjármálahrunsins löngu greiddur.
Þar sem heimili og fyrirtæki greiða slíka skatta í formi lægri innlánsvaxta og/eða hærri útlánavaxta er bagalegt að fallið hafi verið frá áformaðri lækkun bankaskatts. Betur færi á því að draga úr ríkisútgjöldum en að láta almenning áfram bera byrðarnar. Nægar verða áskoranir heimila í þeim þrengingum sem framundan eru. Þess utan fer afkoma bankanna hratt versnandi og mun íþyngjandi skattheimta rýra virði þeirra ríkisbanka sem komnir eru í sölumeðferð. Aðkallandi er að draga úr sértækri skattheimtu, frestun á lækkun bankaskatts gæti ekki komið á verri tíma.
Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA.
Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 6. júní 2019