Hæpnar forsendur um launabreytingar í fjárlagafrumvarpi. Hækkun á almennu tryggingagjaldi veldur vonbrigðum

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins telur forsendur nýs fjárlagafrumvarps um launabreytingar og verðlagsþróun á næsta ári hæpnar. Hækkun á almennu tryggingagjaldi valdi SA vonbrigðum en hækkunin muni hafa neikvæð áhrif á fjölgun nýrra starfa og takmarka svigrúm til að hækka laun. Jákvætt sé að ríkisstjórnin stefni að hallalausum fjárlögum.

Fjallað er um fjárlagafrumvarpið í Fréttablaðinu í dag. Þar kemur m.a. fram að í frumvarpinu er gert ráð fyrir 5,5% launahækkunum yfir árið og að verðbólga verði um 3% sem myndi leiða til 2,6 prósenta kaupmáttaraukningar við skilyrði í hagkerfinu þar sem verðmætaaukning er lítil, skuldsetning atvinnulífsins há og fjárfesting í lágmarki.

Í samtali við blaðið segir Þorsteinn að í fjárlagafrumvarpinu sé gert ráð fyrir svipaðri þróun launa og verðbólgu fyrir árin 2015 til 2017, það er að laun hækki um fimm til sex prósent á ári en verðbólga um 2,5 prósent. Slíkar launabreytingar hafa hins vegar undantekningarlaust leitt til mun meiri verðbólgu. Forsendurnar séu því hæpnar en SA hafa lagt áherslu á hóflegar launahækkanir í komandi kjaraviðræðum og hjöðnun verðbólgu enda skili það heimilum landsins meiri kaupmætti og tryggi atvinnulífinu aðstæður til að vaxa og dafna á ný.

Þorsteinn segir að væntingar um 2,7 prósenta hagvöxt á næsta ári séu bjartsýnar nema mikil breyting verði í efnahagslífinu á stuttum tíma. Að óbreyttu séu horfur á talsvert minni hagvexti á næsta ári.

Hækkun á almennu tryggingagjaldi veldur Samtökum atvinnulífsins miklum vonbrigðum. Að viðbættum þeim ráðstöfunum sem fyrri ríkisstjórn hafi gripið til sé búið að hækka það um 1,5 prósent á stuttum tíma. "Við teljum þetta ekki hentuga skattlagningu og varhugavert að hækka skatta á laun í atvinnulífinu. Aukin skattlagning á laun dregur úr atvinnusköpun," segir Þorsteinn.

Í samtali við RÚV segir Þorsteinn ljóst að hækkun á almennu tryggingagjaldi  takmarki svigrúm til launahækkana í komandi kjarasamningu.

Tengd umræða um fjárlagafrumvarpið:

Spegill RÚV 1. október 2013

Í bítið á Bylgjunni 2. október 2013

Tengt efni:

Betri lífskjör með minni verðbólgu, lægri vöxtum og nýjum störfum