Hækkun mótframlags í lífeyrissjóði

Mótframlag launagreiðenda gegn iðgjaldi starfsfólks í lífeyrissjóði á almennum vinnumarkaði hækkaði um 1,5% af tekjum þann 1. júlí. Samið var um hækkunina í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands í janúar 2016. Framlag launagreiðenda verður 10% í stað 8,5% áður og heildariðgjaldið því 14%.

Framlag launagreiðenda hækkar aftur um 1,5% þann 1. júlí 2018 og verður þá 11,5% eins og hjá ríkisstarfsmönnum. Iðgjald launafólks verður áfram 4% og heildariðgjaldið 15,5%.

Samkvæmt kjarasamningnum eiga sjóðsfélagar að geta ráðstafað heildariðgjaldi umfram 12% í séreignarsparnað í stað samtryggingar, svokallaða tilgreinda séreign. Samþykktir lífeyrissjóðanna hafa nú verið uppfærðar til samræmis við kjarasamninginn.

Nýmælið um tilgreinda séreign snertir launagreiðendur ekki því sjóðsfélaginn þarf að ákveða hvort iðgjald vegna hans renni í tilgreinda séreign hjá viðkomandi lífeyrissjóði eða ekki og gerist það í beinum samskiptum sjóðsfélaga og lífeyrissjóðs án milligöngu launagreiðenda. Að öðrum kosti rennur allt viðbótariðgjaldið í samtryggingardeild sjóðanna.

Greinargóðar upplýsingar um tilgreinda séreign má m.a. nálgast á vef Lífeyrissjóðs verslunarmanna