Hægir á vexti hagkerfisins

Tölur Hagstofu Íslands um hagvöxt á fyrri hluta ársins sýna að hægt hafi á vexti hagkerfisins, og meira en áætlanir stjórnvalda og Seðlabankans hafa gert ráð fyrir. Nýlegar upplýsingar um hægari vöxt ferðaþjónustu gefa tilefni til að ætla  að síðari árshelmingur verði í svipuðum takti og sá fyrri og jafnvel að enn hægi á vextinum.

Hagvöxtur á fyrri helmingi ársins var 4,3% sem er töluvert minni hagvöxtur  7,4% vöxtur á síðasta ári. Vöxtur einkaneyslu um 8% er megin drifkraftur hagvaxtar á fyrra árshelmingi. Vöxtur einkaneyslu hefur ekki verið meiri síðan árinð 2007 en ólíkt þensluskeiðinu sem þá ríkti knýr aukinn kaupmáttur fram neyslu heimila en ekki aukin skuldsetning. Fjárfesting á fyrri árshelmingi ársins jókst um ríflega 5% sem er umtalsvert minni vöxtur en árið 2016 sem var 23%.

Þó ríflega 4% hagvöxtur sé mikill í alþjóðlegum samanburði er vöxturinn mun hægari en síðustu misseri. Þá er samdráttur milli tveggja fyrstu ársfjórðunga.

 

Hvaða þýðingu hefur þetta horft fram á við?
Minni hagvöxtur en áætlanir stjórnvalda gera ráð fyrir hlýtur að hafa áhrif á fjármálaáætlun stjórnvalda. Gagnrýni Samtaka atvinnulífsins á núverandi áætlun hefur falist í því að það sé óábyrgt að treysta á lengsta og kröftugasta hagvaxtarskeið Íslandssögunnar án þess að búa í haginn fyrir hugsanlegan samdrátt. Áætlanir stjórnvalda gera ráð fyrir svo litlum afgangi í rekstri ríkissjóðs á næstu árum að lítið má út af bregða. Verði hagvöxtur næstu ára endurskoðaður niður á við, sem verður að teljast líklegt, mun afgangurinn hverfa áður en langt um líður. Það er því áhyggjuefni að stjórnvöld hafi ekki nýtt síðustu ár til að búa í haginn fyrir lakari tíð og  í staðinn eytt nánast hverri krónu samfara miklum tekjuauka ríkissjóðs. Ljóst er að stjórnvöld geta ekki treyst á að vöxtur tekna ríkissjóðs haldi áfram í sama takti og verið hefur undanfarin ár.

Innan skamms verður verður lagt fram fjárlagafrumvarp og fjármálaáætlun til næstu ára. Þá eru kjaralotur stéttarfélaga opinberra starfsmanna framundan og fregnir berast af launakröfum sem eru í engu samræmi við undirliggjandi stöðu hagkerfisins. Síðustu kjarasamningar voru kostnaðarsamir fyrir bæði fyrirtækin í landinu og hið opinbera en þrátt fyrir miklar launahækkanir hefur verðbólgan haldist llítil en ástæðu þess má rekja til ýmissa þátta sem ólíklegt er að endurtaki sig. Ef enn á ný skal treyst á hagstæð viðskiptakjör og frekari gengisstyrkingu krónunnar við gerð kjarasamninga er ljóst að eitthvað mun láta verulega undan í hagkerfinu. Það er eðlileg krafa að vinnumarkaðurinn sýni ábyrgð og taki þátt í að varðveita þá einstæðu stöðu sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi.

Að lokum
Árið 2016 var ákaflega gott ár í efnahagslegu tilliti. Árið 2017 verður líklega ekki síðra þó  hagvöxturinn verði minni. Staða þjóðarbúsins er óvenju sterk um þessar mundir, hagvöxtur er kröftugur, kaupmáttaraukning hefur verið gríðarleg og skuldir greiddar niður.  Það væri óábyrgt annað en að varðveita þá stöðu sem nú ríkir. Ríflega 4% hagvöxtur er eftir allt saman mikið heilbrigðismerki.