Gríðarlegt átak nauðsynlegt í orkumálum heimsins
Á vettvangi loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna er stefnt að því að ná samkomulagi um framhald svokallaðrar Kyoto-bókunar í lok þessa árs. Miðað við forsendur ESB má ætla að Ísland geti þurft að takast á hendur skuldbindingar um 15-20% samdrátt í almennri losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2020 frá árinu 2005. Útstreymi vegna stóriðju er þar ekki talið með. Þetta kom fram í erindi Péturs Reimarssonar, forstöðumanns hjá SA, á aðalfundi Samorku. Gríðarlegt átak þarf í orkumálum heimsins til að ná niður útstreymi gróðurhúsalofttegunda.
Loftslagsbreytingar og orkunýting
Pétur fjallaði um loftslagsbreytingar og orkunýtingu í erindi sínu, m.a. um hækkandi hitastig jarðar síðustu aldir, aukna losun gróðurhúsalofttegunda og um mikilvægi þess að draga úr þeirri losun. Lang stærsta hluta losunarinnar má rekja til brennslu á jarðefnaeldsneytum (olía, kol og gas). Hér á landi verða eingöngu 4% losunarinnar rakin til rafmagns og hita en 41% til iðnaðar og efnanotkunar, 23% til samgangna, 15% til sjávarútvegs, 12% til landbúnaðar og 5% til úrgangs.
Pétur sagði ljóst að gríðarlegt átak þyrfti í orkumálum heimsins til að ná niður útstreymi gróðurhúsalofttegunda og að það yrði afar kostnaðarsamt. Bætt orkunýting, kjarnorka, kolefnisförgun og aukin nýting endurnýjanlegra orkugjafa eru helstu leiðirnar í þessum efnum.
Að óbreyttu mun heildarlosun frá orkuvinnslu tvöfaldast á árunum 2000 til 2030 og mun aukningin nánast öll eiga sér stað í þróunarlöndum á borð við Kína og Indland.
ESB-reglur þegar í gildi hér
Pétur greindi frá því að viðskiptakerfi ESB með loftslagsheimildir
er þegar orðinn hluti af EES-samningnum. Frá og með árinu 2013
þurfa þannig orkufyrirtæki að afla sér losunarkvóta af uppboði
fyrir hvers kyns losun gróðurhúsalofttegunda. Í nýjum reglum
ESB um endurnýjanlega orku er gert ráð fyrir að áfram verði í gildi
reglur um græn vottorð sem sum íslensk raforkufyrirtæki hafa verið
að selja. Jafnvel er talið að hitaveitur muni hugsanlega fá
einhvern aðgang að þeim markaði.
Sjá nánar: