Grænbók um framtíð sjávarútvegsstefnu ESB
Bregðast þarf við ofveiði og offjárfestingu og stuðla verður að efnahagslega sjálfbærum sjávarútvegi, segir m.a. í nýútkominni grænbók um framtíð sjávarútvegsstefnu ESB.
Grænbókin er liður í lögboðinni endurskoðun stefnunnar fyrir árslok 2002. Þar setur framkvæmdastjórn ESB fram sín sjónarmið um markmið og leiðir að þeim um leið og efnt er til umræðu um efni hennar. Á grundvelli grænbókarinnar og viðbragða við henni mun framkvæmdastjórnin síðan leggja fram formlegar tillögur að breytingum á sjávarútvegsstefnunni.
Í grænbókinni er fjallað um þann mikla vanda sem stafar af ofveiði á miðum ESB og hvernig styrkjakerfið hefur stuðlað að offjárfestingu í fiskveiðiflotanum. Fram kemur að stuðla verði að efnahagslega sjálfbærri grein og að draga þurfi úr miðstýringu innan sjávarútvegsins í ESB. Nauðsynlegt sé að draga úr sókn og afkastagetu flotans. Meðal hugmynda sem settar eru fram til að auðvelda niðurskurð aflamagns er að ákvarðanir um heildaraflamagn og skiptingu kvóta milli ríkja verði teknar til nokkurra ára í senn, sem jafnframt myndi stuðla að auknum stöðugleika í rekstrinum.
Sjá fréttatilkynningu um grænbókina á heimasíðu ESB.
Sjá grænbókina (pdf-snið) á heimasíðu ESB.