Geta stofnanir hækkað skatta einhliða?
Samtök atvinnulífsins furða sig á að Þjóðskrá Íslands skuli að eigin frumkvæði geta breytt aðferðum við fasteignamat með þeim afleiðingum að skattar á atvinnulífið hækki verulega. Alþingi hlýtur að þurfa að koma að slíkum skattahækkunum. Í umfjöllun fréttastofu RÚV kemur fram að fasteignamat á atvinnuhúsnæði hækkar að meðaltali um 12,4 prósent samkvæmt nýju mati Þjóðskrár sem kynnt var í gær. Hækkanirnar geta numið tugum prósenta á einstökum eignum. Frumvarp er í smíðum í innanríkisráðuneytinu sem mildar áhrif nýja fasteignamatsins, en það tekur ekki að fullu gildi fyrr en 2017. SA efast einnig um lögmæti breytinganna.
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir hærri skatta fylgja nýju fasteignamati. Ef ný matsaðferð Þjóðskrár hefði tekið gildi að fullu á næsta ári hefðu skattgreiðslur atvinnulífsins hækkað um einn til einn og hálfan milljarð króna. Samtök atvinnulífsins hafa ítrekað óskað eftir því í aðdraganda þessara breytinga að heildstætt mat verði lagt á áhrif þessara auknu álaga á atvinnulífið og að hagsmunaaðilum verði gert kleift að koma athugasemdum á framfæri áður en þær taki gildi. Samkvæmt upplýsingum innanríkisráðuneytisins munu skattar á fyrirtæki hækka um 250 til 300 milljónir króna á næsta ári, að teknu tilliti til mótvægisaðgerða.
Þorsteinn segir í samtali við RÚV að það veki furðu SA í þessu máli að stofnun á vegum framkvæmdavaldsins geti að eigin frumkvæði breytt matsaðferðum með þeim afleiðingum að skattar hækki verulega.
„Við veltum því fyrir okkur í tengslum við þetta mál hvort að stofnunin hafi heimild til slíks, og hvort að þetta væri þá ekki breyting sem krefðist aðkomu Alþingis."