Gera þarf spá um menntun og færni á íslenskum vinnumarkaði
Ráðstefna Samtaka atvinnulífsins, Vinnumálastofnunar, Hagstofu Íslands og Alþýðusambands Ísland um menntun og færni á vinnumarkaði fór fram í nóvember á Hilton Reykjavík Nordica. Félags- og jafnréttismálaráðherra ávarpaði ráðstefnuna. Að ávarpinu loknu voru þrír erlendir sérfræðingar í fremstu röð með erindi um mikilvægi færni- og mannaflaspáa ásamt því að kynna hvernig þessum málum er háttað í heimalöndum sínum og í Evrópu.
Stór meirihluti Evrópuríkja stundar greiningu á færni- og mannaflaþörf á vinnumarkaði. Markmiðið er að styðja við stefnumótun í mennta-, atvinnu- og vinnumarkaðsmálum ásamt því að veita einstaklingum bestu upplýsingar til að efla menntun sína og færni. Á Íslandi hefur ekki verið unnið markvisst við gerð færnispár og eru Íslendingar þar af leiðandi eftirbátar nágrannaþjóða í heildarstefnumótun m.t.t. þróunar færni, menntunar og vinnumarkaðar.
Að loknum erindunum fór fram pallborðsumræða. Í pallborðinu kom skýrt fram hversu mikilvægt er að ráðist verði í markvissar og reglubundnar færnispár á Íslandi. Þátttakendurnir voru með mjög ólíkan bakgrunn en engu að síður var mikill samhljómur hjá þeim varðandi mikilvægi þess að upplýsingar um færni og mannafla á íslenskum vinnumarkaði verði efldar til muna.
Að ráðstefnu lokinni var innlendum sérfræðingum boðið að eiga samtal í litlum hópi við erlendu gestina. Það reyndist mjög gagnlegt og fengu sérfræðingarnir nánari innsýn inn í þá vinnu sem hefur farið fram í nágrannalöndum Íslands síðustu áratugina.
Mikilvægt er að sem fyrst verði myndaður rammi um gerð færnispár á Íslandi til framtíðar og munu Samtök atvinnulífsins halda áfram að beita sér fyrir því.
Efni og upptöku frá ráðstefnunni má nálgast á vef Vinnumálastofnunar:
Menntun og færni á vinnumarkaði – efni frá ráðstefnu
Tengt efni:
Viðtal við framkvæmdastjóra SA í Morgunútvarpi RUV 27. nóvember – smelltu til að hlusta