Fyrsta bylgjan
Efnahagsleg höggbylgja gengur nú yfir heiminn vegna útbreiðslu kórónaveirunnar og þá einkum vegna óvissu sem hún skapar. Slæmu fréttirnar eru að bylgjan brotnar harðast á ferðaþjónustunni. Ísland er tíunda mesta ferðaþjónustuland heims þegar litið er til hlutfalls ferðaþjónustu af útflutningi. Ef aðeins eru litið til Vesturlanda og þróaðra ríkja þá er Ísland með hlutfallslegu stærstu ferðaþjónustuna.
Góðu fréttirnar eru þær að um er að ræða tímabundið ástand. Þá er ríkissjóður í sterkri stöðu eftir að hafa notað uppgangstíma síðustu ára vel í niðurgreiðslu skulda. Sama má segja um Seðlabankann. Hann býr yfir tæplega 900 milljarða króna gjaldeyrisforða.
Það er ánægjulegt að sjá ríkisstjórn og Seðlabanka grípa strax til þeirra úrræða sem þau hafa yfir að búa til að styðja við atvinnulífið í þessari stöðu.
Bankahrunið bitnaði strax á fullum þunga á heimilum þegar eigið fé heimila minnkaði verulega við það að lánin þeirra hækkuðu með verðbólgu og falli krónunnar. Sama er ekki upp á teningnum nú og afar mikilvægt að gera greinarmun þar á. Bein áhrif á almenning sem ekki verður fyrir atvinnumissi verða með allt öðrum og vægari hætti til langs tíma. Fyrsta höggbylgjan lendir á fullum þunga á atvinnulífinu. Því betur sem atvinnulífið stendur höggið af sér því minni verða áhrifin á heimilin. Því verr sem atvinnulífið stendur höggið af sér því meira verður atvinnuleysið og því meiri verða áhrifin á heimilin.
Það er því ánægjulegt að sjá ríkisstjórn og Seðlabanka grípa strax til þeirra úrræða sem þau hafa yfir að búa til að styðja við atvinnulífið í þessari stöðu. Vaxta- og skattalækkanir og frestir til að greiða skatta og gjöld munu minnka kostnað fyrirtækja og heimila og gera þeim auðveldara að takast á við tímabundinn tekjumissi. Lækkun bindiskyldu losar um 40 milljarða króna hjá bönkunum sem þeir geta notað til að aðstoða fyrirtæki og heimili í vanda. Að flýta og auka ríkisframkvæmdir skapar störf í stað þeirra sem glatast. Markaðsátak fyrir ferðaþjónustu þegar hið versta er afstaðið mun flýta okkur að komast á lappir að nýju. Þetta eru góð fyrstu skref.
Ríkisstjórnin, Seðlabankinn, atvinnulífið og launafólk vinna saman sem einn maður við að styrkja varnargarðinn. Fyrsta bylgjan er skollinn á af fullum þunga. Ef við stöndum öll saman sem eitt í að standa hana af okkur og flýta fyrir efnahagsbata að nýju verða skammtímaáhrif fyrir almenning í lágmarki og langtímaáhrif verði minni en ella.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Greinin birtist í Morgunblaðinu, 13. mars 2020.