Fyrirtækin vilja aukin tengsl við háskóla

Á dögunum sendu Samtök atvinnulífsins fyrirtækjum nokkrar spurningar um samstarf háskóla og atvinnulífs, að beiðni Stúdentaráðs Háskóla Íslands, sem lagði SA til spurningarnar. Í niðurstöðum könnunarinnar vekur athygli að alls töldu tæp 77% svarenda að fyrirtæki ættu að gerast virkari þátttakendur í kennslu, stjórnun eða rannsóknum við Háskóla Íslands. Fastlega má gera ráð fyrir að þetta hlutfall hefði verið enn hærra ef spurningin hefði náð til háskóla almennt. Niðurstöðurnar benda því til þess að allur þorri fyrirtækja vilji koma að málefnum háskóla á einhvern hátt, og að vilji til aukins samstarfs atvinnulífs og háskóla sé því mjög ríkjandi innan atvinnulífsins.

Þá vekur athygli að tæp 48% fyrirtækja töldu að framlög þeirra til kennslu eða rannsókna við HÍ myndu aukast ef skattafrádráttur vegna slíkra framlaga yrði aukinn. Um 28% svöruðu neitandi en um 24% tóku ekki afstöðu. Mun fleiri fyrirtæki svöruðu þannig spurningunni játandi en neitandi, og sem fyrr má ætla að fleiri fyrirtæki hefðu svarað játandi ef spurningin hefði vísað til háskóla almennt. Niðurstöðurnar benda því til þess að a.m.k. helmingur fyrirtækja myndi auka framlög sín til rannsókna og menntunar ef skattafrádráttur vegna slíkra framlaga yrði aukinn.

Fjármálafyrirtækin jákvæðust
Viðhorf fyrirtækjanna til Háskóla Íslands var í rúmum 82% tilfella jákvætt, m.a. viðhorf allra fjármálafyrirtækjanna sem svöruðu könnuninni. Þá töldu alls 66% fyrirtækja að HÍ væri að standa sig vel í að skila hæfu starfsfólki út í atvinnulífið. Hæst var hlutfall fjármálafyrirtækja með jákvæða afstöðu, eða 95%, en lægst var hlutfallið meðal fiskvinnslufyrirtækja, eða 41%. Þá töldu um 47% fyrirtækja að þau gætu haft hag af því að greiða stúdentum fyrir að vinna að verkefnum er tengdust starfsemi þeirra. 65% fjármálafyrirtækja töldu svo vera en einungis tæp 28% rafverktaka.

Nánar um könnunina
Könnunin var gerð um miðjan desember síðastliðinn. Samtök atvinnulífsins sendu 1344 aðildarfyrirtækjum sínum fimm spurningar að beiðni Stúdentaráðs Háskóla Íslands, um viðhorf fyrirtækja til skólans og að nokkru marki til háskóla almennt. Með því voru Samtök atvinnulífsins að styðja það markmið Stúdentaráðs HÍ að auka samstarf stúdenta, Háskóla Íslands og atvinnulífsins. Svör bárust frá 433 fyrirtækjum, eða 32,22%.

Jákvætt viðhorf til Háskóla Íslands
Fyrst var spurt um viðhorf fyrirtækjanna til Háskóla Íslands.
- Viðhorfið reyndist almennt jákvætt, en alls sögðust rúm 82% hafa mjög eða frekar jákvætt viðhorf til HÍ, og rúm 15% hvorki jákvætt né neikvætt viðhorf. Hverfandi hluti svarenda, eða innan við 3%, sögðust hafa frekar eða mjög neikvætt viðhorf til HÍ, og eru þau hlutföll raunar nálægt vikmörkum.
- Ef svörin eru greind eftir aðildarfélögum SA, þ.e. eftir starfsgreinum, þá kemur lítil dreifing í ljós. Hlutfall mjög eða frekar jákvæðra fer neðst í um 78% hjá félagsmönnum SART, þ.e. hjá rafverktökum, en þar er ekki um að ræða marktækan mun frá 82% meðaltalinu. Athygli vekur hins vegar að þau 20 fjármálafyrirtæki sem svara könnuninni eru öll með frekar eða mjög jákvætt viðhorf til Háskóla Íslands, flest reyndar með frekar jákvætt viðhorf eða 70%.
- Ekki er greinanlegur afgerandi munur á afstöðu fyrirtækja til HÍ eftir stærð fyrirtækjanna, mældri í fjölda starfsmanna, né eftir því hvar þau eru með starfsstöðvar.

Hæft starfsfólk
Þá var spurt hvernig Háskóli Íslands væri að standa sig í að skila hæfu fólki út til atvinnulífsins.
- Rúmur helmingur fyrirtækja taldi hann vera að standa sig frekar vel og rúm 15% sögðu hann standa sig mjög vel, alls um 66%. Tæp 30% sögðu hann standa sig sæmilega en frekar eða mjög illa svöruðu alls tæp 4,5%.
- Ef svörin eru greind eftir atvinnugreinum eru það fyrst og fremst fjármálafyrirtækin sem skera sig úr, en alls 95% þeirra telja HÍ standa sig frekar eða mjög vel í að skila hæfu fólki út til atvinnulífsins. Lægst er hlutfallið í fiskvinnslunni, eða 41%, og þar segja alls rúm 10% HÍ vera að standa sig frekar eða mjög illa. Aðrar greinar eru nálægt fyrrgreindu meðaltali.
- Ekki er teljanlegur munur á afstöðu fyrirtækja til HÍ eftir stærð þeirra eða starfssvæði.

Áhugi á þátttöku fyrirtækja í kennslu...
Einnig var spurt hvort fyrirtæki ættu að gerast virkari þátttakendur í kennslu, rannsóknum eða stjórnun við Háskóla Íslands. Gera má ráð fyrir að svarendur hafi að einhverju marki túlkað þessar spurningar á misjafnan máta, en niðurstöðurnar eru engu að síður fróðlegar.
- Tæp 11% vildu að fyrirtæki gerðust virkari þátttakendur í kennslu við HÍ, tæp 27% í rannsóknum, rúm 9% í stjórnun og tæp 30% töldu að fyrirtæki ættu að gerast virkari þátttakendur í öllu framangreindu. Einungis 23,5% töldu fyrirtæki ekki eiga að gerast virkari þátttakendur í neinu ofangreindu.
- Lítill munur mældist á svörum eftir greinum eða starfssvæðum.

Smellið á myndina

Verkefnavinna stúdenta oft hagkvæmur kostur
Þá voru fyrirtæki spurð hvort þau teldu sig geta haft hag af því að greiða stúdentum fyrir að vinna að verkefnum er tengdust starfsemi þeirra.
- Alls töldu um 47% að þau gætu haft hag af slíku, en rúmur meirihluti taldi svo ekki vera.
- Líkt og víðar voru fjármálafyrirtækin jákvæðust gagnvart þessari spurningu, en alls töldu um 65% þeirra sig geta haft hag af slíkum viðskiptum. Í fiskvinnslu var hins vegar hæst hlutfall þeirra fyrirtækja sem töldu sig geta haft mjög mikinn hag af slíkum viðskiptum, eða rúm 20%, en alls töldu um 56% þeirra sig geta haft hag af slíku. Rafverktakar höfðu hins vegar minnsta trú á slíkum viðskiptum, en þar töldu tæp 28% fyrirtækja sig geta haft af slíkri vinnu stúdenta.
- Lítill munur mældist eftir starfssvæðum. Hins vegar virtust minnstu fyrirtækin, í fjölda starfsmanna talið, hafa minnsta trú á að þau gætu haft hag af slíkri vinnu stúdenta, eða allt niður í rúm 24% hjá fyrirtækjum með 6 til 10 starfsmenn.

Smellið á myndina

Aukin framlög gegn skattaafslætti
Loks voru fyrirtæki spurð hvort þau teldu að framlög þeirra til kennslu eða rannsókna við Háskóla Íslands myndu aukast ef skattafrádráttur vegna framlaga fyrirtækja til menntunar eða rannsókna yrði aukinn.
- Alls töldu tæp 48% mjög eða frekar líklegt að svo yrði. Tæpur fjórðungur taldi hvorki líklegt né ólíklegt að þau myndu auka slík framlög og því mun lægra hlutfall, eða um 28% sem svöruðu spurningunni neitandi.
- Minnstar líkur á aukningu slíkra framlaga mældust hjá fyrirtækjum í verslun og þjónustu (35%) og útgerðarfyrirtækjum (37%), en mestar hjá fjármálafyrirtækjum (55%), rafverktökum (53%) og fyrirtækjum í ferðaþjónustu (52%).
- Fyrirtæki með starfssvæði á höfuðborgarsvæðinu mældust eilítið líklegri til að auka framlög til rannsókna og menntunar, gegn skattafrádrætti, en fyrirtæki með starfssvæði á landsbyggðinni, eða rúm 50% annars vegar en tæp 39% hins vegar. Ekki mældust tengsl við stærð fyrirtækja.

Smellið á myndina