Fyrirtæki opna dyrnar til að efla verk- og tæknimenntun

Samtök atvinnulífsins hvöttu á dögunum fyrirtæki til að taka þátt í að efla verk- og tæknimenntun með því að kynna atvinnulífið fyrir nemendum og kennurum grunn- og framhaldsskóla.  Skemmst er frá því að segja að viðbrögðin voru mjög jákvæð og brugðust fyrirtækin skjótt við kallinu. Um 50 fyrirtæki hafa nú þegar lýst yfir áhuga á efla starfsmenntun með því að taka þátt en fleiri geta bæst í hópinn.

Að efla verk- og tæknimenntun er mikilvægt hagsmunamál atvinnulífsins. Til að skólar útskrifi fólk með þekkingu sem nýtist í atvinnulífinu þurfa börn og unglingar að skilja í hverju störf eru fólgin og hverju þau skila. Til að nemendur fái nauðsynlega tengingu við fjölbreytt störf, með sérstakri áherslu á verk- og tækni, þurfa þau að fá tækifæri til að komast í raunverulega snertingu við atvinnulífið í landinu. Fulltrúar fyrirtækja þurfa líka að eiga þess kost að skiptast á skoðunum við  skóla um  áherslur í skólastarfi sem efla áhuga nemenda á atvinnulífinu og hjálpa þeim að velja meðvitað við hvað þeir ætla að starfa síðar á lífsleiðinni.

Þau fyrirtæki sem vilja taka þátt í þessu mikilvæga verkefni geta sent tölvupóst til Samtaka atvinnulífsins á sa@sa.is þar sem kemur fram nafn fyrirtækis, póstnúmer þar sem það starfar og tengiliður. Fulltrúar nærliggjandi skóla mundu síðan hafa samband við tengiliðinn næsta haust til að ræða hvernig samstarfinu verður háttað. Miklu skiptir að fá skráningar strax í vor svo náms- og starfsráðgjafar og kennarar sjái hvar þeir geti borið niður í haust.

Dæmi um framlag fyrirtækja gæti verið að halda kynningu í skólum á hlutverki fyrirtækis í samfélaginu og störfum sem þar eru unnin, að taka á móti nemendum í starfskynningar, að  þróa stutt starfsnám í samstarfi við skólann eða gefa nemendum  verkefni til úrvinnslu sem tengjast starfsemi fyrirtækisins. Möguleikarnir eru margir.