Fyrirtæki hafa forystu um að draga úr losun
Fyrirtækin í landinu munu eiga mestan þátt í að ná markmiðum Íslands um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á næstu árum og áratugum. Verulega hefur dregið úr kolefnisfótspori sjávarútvegsins síðustu áratugi og sú þróun mun halda áfram með tækniþróun, betri stýringu veiða og aukinni áherslu á verðmætasköpun. Áliðnaðurinn er þegar í fremstu röð fyrirtækja í heiminum og uppfyllir ströngustu viðmið um losun kolefnis á hvert tonn sem framleitt er.
Fyrirtækin í landinu, hvert fyrir sig, leitast við að draga úr umhverfisáhrifum af starfsemi sinni, minnka losun, draga úr myndun úrgangs, bæta nýtingu aðfanga, minnka sóun og stunda sjálfbæra nýtingu auðlinda. Þau beita sér sömuleiðis fyrir landgræðslu og skógrækt, til mótvægis við losun gróðurhúsalofttegunda og leggja verulega fjármuni til þess.
Í síðustu viku birtu stjórnvöld aðgerðaáætlun þar sem sett er markmið um samdrátt í losun til ársins 2030 og um kolefnishlutleysi árið 2040. Þessi áætlun er mun betur unnin og vandaðri en sú sem birt var 2018. Atvinnulífið hefur stutt almennar aðgerðir stjórnvalda til að vinna gegn loftslagsbreytingum og losun gróðurhúsalofttegunda og mun gera það áfram.
Ísland, ESB og Noregur hafa komið sér saman um sameiginleg markmið til að uppfylla skuldbindingar gagnvart Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna. Í ríkjunum er skuldbindingum skipt í tvo hluta.
Annars vegar er losun frá orkufrekum iðnaði sem fellur undir svo kallað ETS-kerfi, þar sem losunin er talin fram sameiginlega í öllum ríkjunum og á að minnka um 43% til 2030, frá árinu 2005. Vegna þess að kerfið er samevrópskt og að ekki er ætlunin að stöðva iðnþróun í Evrópu, er búið til svigrúm til að ný fyrirtæki geti hafið starfsemi. En í heildina er gert ráð fyrir að nýsköpun og tækniþróun, ásamt úreldingu eldri fyrirtækja, muni leiða til samdráttar í losun. Þessi fyrirtæki fá úthlutað losunarheimildum sem fækkar smám saman, þær verða dýrari og þessir þættir knýja fram minni losun jafnt og þétt.
Það verða því fyrirtækin sem draga vagninn til að uppfylla skuldbindingar og markmið Íslands í loftslagsmálum, bæði til 2030 og einnig til lengri tíma.
Hins vegar er svo almenn starfsemi innanlands. Í aðgerðaáætluninni er gert ráð fyrir mestum samdrætti losunar frá sjávarútvegi, jarðhitavirkjunum, orkufrekum iðnaði og ýmissi annarri starfsemi. Það verða því fyrirtækin sem draga vagninn til að uppfylla skuldbindingar og markmið Íslands í loftslagsmálum, bæði til 2030 og einnig til lengri tíma. Almenningur mun draga úr losun eftir því sem samgöngur breytast. Orkuskipti, vistvænir bílar, almenningssamgöngur, hjólreiðar og aðrir vistvænir samgönguhættir skipta miklu.
Í aðgerðaáætluninni er gert ráð fyrir skattheimtu til að hvetja fólk og fyrirtæki til að breyta sínum háttum. En gæta þarf þess að skattheimta skili raunverulegum árangri. Það virðast til dæmis ekki mikil tengsl milli kolefnisgjalds og losunar. Í áætluninni kemur einnig fram að leggja eigi á svo kallaðan urðunarskatt og þá þarf að liggja fyrir að skattheimtan muni í raun skila því sem ætlað er, en verði ekki einungis enn einn skattur til ríkissjóðs án tengsla við umhverfisáhrif.
Á mörgum sviðum mun þróunin á Íslandi byggja á alþjóðlegri þróun, s.s. við að minnka losun við þungaflutninga, þróun eldsneytis og vélbúnaðar fyrir fiskiskip og flugvélar og innleiðingu nýrrar tækni við álframleiðslu og aðra stóriðju.
Þó það teljist ekki til losunar Íslands, hefði verið gaman að sjá lagt mat á áhrif verkefna sem íslensk fyrirtæki hafa staðið fyrir erlendis s.s. jarðhitaverkefni víða um heim, virkjanir og uppbyggingu þekkingar og yfirfærslu tækni og reynslu, þar sem hennar hefur verið þörf. Þarna er um að ræða stórar tölur sem gætu verið upplýsandi í þessu samhengi.
Halldór Benjamín Þorbergsson er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Greinin birtist fyrst í Markaðnum þann 1. júlí.