Fyrirmyndir á vinnumarkaði
Í dag verða Hvatningarverðlaun jafnréttismála afhent í Hátíðarsal Háskóla Íslands. Markmiðið með þeim er að vekja jákvæða athygli á fyrirtækjum sem sett hafa jafnrétti á oddinn og jafnframt að hvetja önnur fyrirtæki til að gera slíkt hið sama. Við afhendingu verðlaunanna verður bent á hagnýtar leiðir til að auka jafnrétti á vinnustöðum.
Samtök atvinnulífsins óska fjórða handhafa Hvatningarverðlauna jafnréttismála til hamingju með daginn og hvetja stjórnendur annarra fyrirtækja til að setja jafnrétti á oddinn.
Það skiptir höfuðmáli að kraftar beggja kynja fái notið sín til jafns á íslenskum vinnumarkaði sem er mjög kynskiptur, en launamunur kynja er að stórum hluta rakinn til hans. Karlar eru í miklum meirihluta þeirra sem starfa á almennum vinnumarkaði og konur í meirihluta þeirra sem starfa á opinberum vinnumarkaði. Það þarf að jafna leikinn. Þótt hlutfall kvenna á vinnumarkaði sé 47% og karla 53% þá eru hlutfall kvenna í hópi stjórnenda og embættismanna einungis 34%. Þá er mikill minnihluti iðnaðarmanna konur en þær eru hins vegar í miklum meirihluta í skrifstofu-, þjónustu- og afgreiðslustörfum og í hópi kennara.
Í gegnum tíðina hafa einnig fleiri karlar en konur stofnað fyrirtæki þó svo að fjölmörg glæsileg fyrirtæki hafi verið stofnuð af konum í seinni tíð. Könnun sem SA gerði fyrir fáeinum misserum sýndi þó að enginn kynjamunur reyndist vera til staðar þegar fólk á aldrinum 18-24 ára var spurt að því hvort það hefði áhuga á að stofna sitt eigið fyrirtæki. Þetta er vonandi vísbending um breytta tíma og að kynjamyndir vinnumarkaðarins verði ekki eins bjagaðar og þær eru í dag.
Að Hvatningarverðlaunum jafnréttismála standa Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, landsnefnd UN Women á Íslandi, Samtök atvinnulífsins og Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð. Íslandsbanki, Orkuveita Reykjavíkur og Rio Tinto Alcan hafa áður hlotið verðlaunin og eru góðar fyrirmyndir þegar kemur að jafnrétti á vinnumarkaði. Samtök atvinnulífsins óska fjórða handhafa Hvatningarverðlauna jafnréttismála til hamingju með daginn og hvetja stjórnendur annarra fyrirtækja til að setja jafnrétti á oddinn.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. september 2017.