Fyrirhyggjan að leiðarljósi
Seðlabankinn gaf í gær út ritið Fjármálastöðugleika þar sem farið er yfir stöðu efnahagsmála. Engum dylst að horfurnar eru dökkar – bjartsýnasta sviðsmynd bankans gerir ráð fyrir nær 6% samdrætti í landsframleiðslu Íslands á þessu ári og sú svartsýnasta rúmlega 10% samdrætti . Áætlað er að heimshagkerfið dragist saman um 5% á árinu. Alvarlegar áskoranir eru framundan, en ýmislegt jákvætt má þó lesa úr skýrslu bankans.
Seðlabankinn og bankakerfið eru vel í stakk búin til að takast á við þær áskoranir sem eru framundan. Staða hinna kerfislega mikilvægu banka er sterk þó að líkur séu á talsverðri virðisrýrnun útlána næstu misseri og mikil óvissa ríki um raunverulegt virði útlánasafns þeirra. Gjaldeyrisforði Seðlabankans sem hleypur í dag á um 900 milljörðum króna, mun koma til með að standast viðmið jafnvel þótt mikill fjármagnsflótti yrði að veruleika. Enn sem komið er merkjast þó ekki vísbendingar um slíkt.
Fyrirhyggjusemi seinustu ára kemur sér vel. Niðurgreiðsla skulda hefur verið sérstakt forgangsatriði ríkis, fyrirtækja og heimila og sparnaður í sögulegu lágmarki.
Sú forgangsröðun hefur gert það að verkum að ríkissjóður og heimilin almennt eru í ágætri stöðu til að takast á við þær aðstæður sem hafa skapast í kjölfar Covid áfallsins til skemmri tíma. Óvissan er engu að síður mikil og alls óljóst hverjar lengri tíma afleiðingar verða.
Lykilatriði nú er að tryggja greiðsluhæfi og þar hafa yfirvöld og Seðlabankinn kastað út mikilvægum björgunarhringjum. Vextir hafa lækkað umtalsvert, sem hefur létt á greiðslubyrði fjölda heimila og fyrirtækja sem hafa kosið að endurfjármagna lán sín á hagstæðari kjörum. Um 14% fyrirtækja í atvinnurekstri nýttu sér hlutabótaleið stjórnvalda og um 1.800 fyrirtæki höfðu sótt um sérstakt greiðsluhlé hjá bönkunum um miðjan júní. Fjárhæð lána í slíku greiðsluhléi nemur um 15% af heildarútlánum til fyrirtækja, eða um 280 ma.kr. Það er því ljóst að rekstrargrundvelli hefur verið kippt undan verulegum fjölda fyrirtækja, að minnsta kosti tímabundið.
Mörg þeirra úrræða sem hafa boðist felast í frestunum á greiðslum eða aukinni skuldsetningu fyrirtækja og heimila. Ekki er enn ljóst hversu langt þau úrræði munu duga til að koma í veg fyrir vanskil og gjaldþrot eða hvort þau séu að megninu til frestun á vandanum, en þau eru eðlileg skammtímaviðbrögð svo hægt sé að viðhalda samfélagslegum innviðum og verja störf eins og kostur er á meðan það versta dynur yfir. Á einhverjum tíma þarf þó að standa skil á þessum greiðslum. Þá þarf að gæta þess að verðmætasköpunin verði nægilega mikil til að standa undir aukinni skuldabyrði.
Auka þarf verðmætasköpun og verja störf
Alvarlegustu áhrif farsóttarinnar eru á vinnumarkaðinn. Spá bankans gerir ráð fyrir um 7-10% atvinnuleysi á þessu ári, sem er meira atvinnuleysi en sást í kjölfar fjármálaáfalls ársins 2008. Svo lengi sem hátt atvinnuleysisstig verður ekki viðvarandi munu heimilin þó geta tekist á við þessar aðstæður. Helsta áhyggjuefni atvinnurekenda er íþyngjandi skattlagning og hár launakostnaður. Þrátt fyrir að niðursveifla hafi þegar verið hafin í hagkerfinu fyrir farsóttina stóð árshækkun launavísitölunnar í 6,4% í lok maí.
Til að raunhæft sé að viðhalda ákjósanlegu atvinnustigi í landinu munu allir aðilar vinnumarkaðarins þurfa að horfa á heildarmyndina og gefa eitthvað eftir. Fyrirtækin eru þegar farin að hagræða í stórum stíl og hið opinbera þarf að gera hið sama. Mikilvægt er að tryggja rekstrarleg skilyrði svo unnt sé að auka verðmætasköpun og fjölga störfum á nýjan leik. Forsendur hafa breyst.
Eins og Seðlabankastjóri nefndi í kjölfar útgáfunnar þá er mikilvægt að ríkið sé ekki alltaf fyrsti aðilinn til að koma að borðinu til að leysa þau vandamál sem munu óumflýjanlega koma upp á næstu misserum. Aðrir þurfa einnig að taka ábyrgð; bankarnir, fyrirtæki og aðilar vinnumarkaðarins.
Skilaboð í riti Seðlabankans eru skýr; ljóst er að tjónið er nú þegar orðið mikið. En við höfum búið í haginn. Fyrirhyggja seinustu ára hefur gert það að verkum að svigrúmið er til staðar til að milda sársaukann af áfallinu. Aðgerðir stjórnvalda til að dempa höggið eru tímabundnar. Þegar jafnvægi hefur náðst og við getum horft upplitsdjörf fram veginn verða ábyrgð og fyrirhyggja að vera leiðarljósið á ný.
Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.