Fyrirbyggjum einelti og áreitni á vinnustöðum
Ný reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum hefur tekið gildi. Markmið nýrra reglna er að fyrirbyggja einelti og áreitni með forvörnum og áhættumati. Atvinnurekenda ber að gera starfsmönnum ljóst með skýrum hætti að slík hegðun sé óheimil og grípa til aðgerða í samræmi við skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, komi fram kvörtun, ábending eða rökstuddur grunur um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi.
Nýja reglugerðin tók gildi í lok árs 2015 og kemur í stað eldri reglugerðar frá árinu 2002.
Á öllum vinnustöðum er skylt að framkvæma áhættumat, sbr. lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð nr. 920/2006, um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum. Helstu nýmæli eru eftirfarandi:
1) Við framkvæmd áhættumats á vinnustað skal atvinnurekandi nú greina áhættuþætti eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni og ofbeldis á vinnustaðnum. Átt er við áhættuþætti er varða hegðun á viðkomandi vinnustað hvort sem atvinnurekandi, stjórnendur og/eða aðrir starfsmenn eiga hlut að máli. Jafnframt er átt við áhættuþætti er varða samskipti starfsmanna viðkomandi vinnustaðar við einstaklinga sem teljast ekki til starfsmanna vinnustaðarins en samskiptin eiga sér stað í tengslum við þá starfsemi sem fram fer á vinnustaðnum.
2) Kynbundin áreitni fellur nú einnig undir reglugerðina, hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk og misbýður virðingu viðkomandi og skapar aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, eða móðgandi.
3) Ofbeldi, hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig fellur undir reglugerðina hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis.
Á vef Vinnueftirlitsins er að finna fjölmörg hjálpartæki til að framkvæma áhættumat á vinnustað, s.s. vinnuumhverfisvísa og bæklinga.Til er sérstak rafrænt áhættumat fyrir skrifstofur, veitingahús og mötuneyti, sem aðgengilegt er öllum ókeypis og var útbúið af Vinnuverndarstofnun Evrópu.
Brot á eineltis reglugerðinni eins og á vinnuverndar reglugerðum geta leitt til sekta.
Sjá nánar: