Fundur á miðvikudag: Er allt á hreinu í þínu fyrirtæki?

Miðvikudaginn 26. október verður haldinn fundur hjá Samtökum atvinnulífsins um áhættugreiningu og áhættumat í fyrirtækjum. Fundurinn hefst klukkan 8:30 og stendur til 10:30. Á fundinum verður fjallað um auknar kröfur sem gerðar eru til fyrirtækja, framkvæmd áhættugreiningar og áhættumats og tækifæri sem fyrirtæki geta nýtt sér vegna þessa.

Í sífellt fleiri lögum og reglugerðum eru gerðar kröfur um að fyrirtæki geri sérstakt áhættumat, sem varðar bæði ytra umhverfi og innri starfsemi. Í lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda er t.d. kveðið á um að fyrirtæki komi sér upp sérstökum viðbragðsáætlunum til að bregðast við bráðamengunarslysum. Á fundi SA verða veittar almennar upplýsingar um aðferðarfræðina sem liggur að baki áhættugreiningu og áhættumati, tilganginn, og tilgreint hvernig unnt sé að nýta þessa þætti til að ná betri árangri í rekstri fyrirtækja.

Dr. Björn Karlsson, brunamálastjóri flytur inngangserindi, en auk hans flytja erindi Gestur Pétursson, Inpro, Helgi Jensson, Umhverfisstofnun, og Inghildur Einarsdóttir, Vinnueftirlitinu. Sjá nánar dagskrá fundarins.

Skráning á sa@sa.is og í síma 591 00 00.