Fundaröð SA um atvinnulíf og umhverfismál að hefjast

Miðvikudaginn 8. nóvember n.k. hefst fundaröð Samtaka atvinnulífsins: Atvinnulíf og umhverfi. Þar verður fjallað um íslensk fyrirtæki og áhrif þeirra á umhverfið og staða umhverfismála á Íslandi sett í alþjóðlegt samhengi. Fyrsti fundurinn fer fram í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, en á honum verður rætt um útblástur vegna flutninga á sjó og landi. Framsögur flytja Kristján Ólafsson, deildarstjóri hjá Samskipum og Guðmundur Nikulásson, forstöðumaður innanlandssviðs Eimskips.

Skráning hafin

Allir eru velkomnir á fundinn en nauðsynlegt er að skrá þátttöku á vef SA og er skráning þegar hafin. Fundurinn hefst klukkan 8:30 og verður lokið klukkan 10:00. Næsti fundur verður haldinn þann 21. nóvember á sama stað. Þar verður rætt um útstreymi frá álverum á Íslandi, stöðu mála og horfur. Framsögur flytja Guðmundur Ágústsson framkvæmdastjóri hjá Alcan og Óskar Jónsson framkvæmdastjóri hjá Norðuráli.

Fundaröð 2006-2007

Nánara yfirlit yfir fundaröðina verður birt síðar en hún stendur yfir fram á næsta ár. Á fundum SA verður rætt um íslenskt atvinnulíf og umhverfismál frá ýmsum hliðum og tækifæri gefst til að ræða við innlenda og erlenda sérfræðinga sem þekkja vel til umhverfisstarfs fyrirtækja á Íslandi og á alþjóðlegum vettvangi.

Skráning á fund 8. nóvember um útblástur frá flutningum á sjó og landi.

Einnig er hægt að skrá þátttöku í síma 591-0000.