Fundargerð annars fundar Þjóðhagsráðs

Annar fundur Þjóðhagsráðs var haldinn 6. apríl síðastliðinn og hefur fundargerð ráðsins nú verið birt. Rætt var um meginlínur í opinberum fjármálum til næstu fimm ára, stöðu vinnu við nýtt vinnumarkaðslíkan, kjarasamninga á árinu og árangur og áskoranir peningastefnunnar.

Í ráðinu eiga nú sæti forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, umhverfis- og auðlindaráðherra, og forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Seðlabanka Íslands.

Markmið Þjóðhagsráðs er að styrkja samhæfingu hagstjórnar og ákvarðana á vinnumarkaði. Á fundum ráðsins skal fjalla um stöðu í efnahagsmálum og ræða samhengi opinberra fjármála, peningastefnu og kjaramála í tengslum við helstu viðfangsefni hagstjórnar hverju sinni, og skal ráðið beina umfjöllun sinni sérstaklega að þáttum þar sem samhæfingu er helst ábótavant.

Fundi ráðsins skal halda að lágmarki tvisvar á ári og skal fundargerð þeirra birt á heimasíðum aðila að ráðinu. 

Hér að neðan má nálgast efni sem var kynnt á fundinum auk fundargerðarinnar:

Meðfylgjandi mynd var tekin á 2. fundi þjóðhagsráðs 6. apríl 2017. Á myndinni eru frá vinstri: Már Guðmundsson seðlabankastjóri, Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Benedikts Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.