Fumlaus og örugg viðbrögð
Ánægjulegt er að sjá mikla samstöðu milli Alþingis, ríkisstjórnar, Seðlabanka, fjármálastofnana og aðila vinnumarkaðar um viðbrögð við nánast fyrirvaralausum samdrætti í atvinnulífinu. Hann veldur tekjuhruni hjá fjölda fyrirtækja sem þau gátu ekki séð fyrir. Afleiðingin verður sú að fyrirtækin eiga erfiðara með að standa við skuldbindingar sínar gagnvart birgjum, lánastofnunum og launafólki. Einnig er krefjandi að standa skil á opinberum gjöldum við þessar aðstæður.
Þess vegna eru hröð viðbrögð nauðsynleg. Aðgerðir næstu daga og vikur verða að miða að því að aðstoða fyrirtæki sem lenda í tímabundnu tekjufalli þannig að fólk geti haldið störfum sínum og skaðinn verði eins lítill og kostur er. Fyrirtækjum verður auðveldað að minnka starfshlutföll starfsmanna án þess að til uppsagna komi. Það er allra hagur.
Stjórnvöld hafa þegar gripið aðgerða m.a. með því að veita greiðslufrest á opinberum gjöldum en frekari aðgerðir verða kynntar á næstu dögum.
Seðlabankinn hefur gripið til stórtækra aðgerða. Vaxtalækkanir sem Seðlabankinn hefur tilkynnt um í tvígang á einni viku hjálpa bæði fyrirtækjum og launafólki. Með lækkun bindiskyldunnar og niðurfellingu sveiflujöfnunarauka á fjármálafyrirtæki er nauðsynlegu súrefni veitt inn í bankakerfið. Til að setja hlutina í samhengi þá eykst svigrúm bankanna til nýrra útlána um 350 milljarða króna við niðurfellingu sveiflujöfnunaraukans. Slík aðgerð er ein af mörgum sem er nauðsynleg til að fleyta fyrirtækjum yfir þennan tímabundna skell og tryggja að þau séu vel í stakk búin að halda áfram þegar mestu niðursveiflunni lýkur.
Höggið er mikið sem ferðaþjónustan er að lenda í, en samdrátturinn finnst víða. Aðrar atvinnugreinar finna einnig fyrir samdrætti þegar eftirspurn dregst hratt saman eftir vörum og þjónustu. Á óvissutímum heldur fólk að sér höndum. Fyrirtæki draga úr starfsemi sinni, fresta fjárfestingum, seinka markaðssókn og vöruþróun bíður betri tíma.
Þess vegna er nauðsynlegt að samfélagið bregðist hratt við þannig að atvinnulífið verði ekki fyrir óþarfa skaða sem tekur langan tíma að vinna úr – bæði fyrir heimilin og atvinnulífið. Fyrstu viðbrögð hagstjórnaraðila voru markviss og nauðsynleg en þörf er á frekari aðgerðum.
Fumlaus viðbrögð allra eru nauðsynleg til að tryggja að samfélagið komist á skrið sem fyrst þegar ógnarbylgjan fjarar út.
Vorið er framundan.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. mars 2020