Frumvörpin verði dregin til baka
Samtök atvinnulífsins, Samtök fiskvinnslustöðva og Landssamband íslenskra útvegsmanna hafa sent atvinnuveganefnd Alþingis sameiginlega umsögn um frumvörp til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða og veiðigjöld. Með umsögninni fylgir álitsgerð LEX lögmannsstofu og endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte. Samtökin eru í öllum aðalatriðum ósammála efni frumvarpanna og leggja til að þau nái ekki fram að ganga. Verði frumvörpin að lögum munu þau hafa alvarleg áhrif á íslenskan sjávarútveg og efnahagslíf.
-
Af 75 sjávarútvegsfyrirtækjum sem endurskoðunarfyrirtækið Deloitte hefur lagt mat á verða 53 gjaldþrota ef frumvörpin ná fram að ganga.
-
Áhrifin verða mjög neikvæð á öll fyrirtæki í greininni bæði vegna ofurskattlagningar og fjölmargra annarra atriða s.s. skamms afnotatíma aflaheimilda, skerðingar aflaheimilda og stóraukinnar pólitískrar úthlutunar, ríkisleigu aflaheimilda, banns við framsali aflaheimilda og virðisrýrnunar og afskrifta þeirra.
-
Með frumvörpunum verður dregið úr verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs, innleidd skammtímahugsun og grafið undan ábyrgri umgengni um fiskistofnana.
-
Frumvörpin munu hafa mjög neikvæð keðjuverkandi áhrif á fyrirtæki í tengdum greinum og sveitarfélög um land allt, vegna minni fjárfestinga og lakari starfskjara.
-
Í áliti LEX lögmannsstofu eru gerðar alvarlegar athugasemdir við frumvarp til laga um veiðigjöld með hliðsjón af kröfum 40. gr og 77. gr. stjórnarskrárinnar um skattlagningu. Þá er talið að það fyrirkomulag sem felst í frumvörpunum fáist ekki staðist eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar án þess að til bótaskyldu ríkisins stofnist.
Fyrri frumvörp ríkisstjórnarinnar um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem unnin hafa verið án aðkomu og sjónarmiða atvinnugreinarinnar hafa reynst ónothæf. Alvarlegar athugasemdir sjávarútvegsins og annarra atvinnugreina, sveitarfélaga, lánastofnana, sérfræðinga á sviði hagfræði, endurskoðunar og lögfræði auk fjölmargra annarra aðila sýna að það sama gildir um fyrirliggjandi frumvörp.
Samtökin skora á stjórnvöld að draga frumvörpin til baka. Sátt um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða næst ekki nema með aðkomu atvinnugreinarinnar sjálfrar, þeirra sem best þekkja til starfsemi sjávarútvegsins.