Frumkvöðlum fylgt eftir
Sjónvarp mbl.is sýnir um þessar mundir þáttaröðina Sprota en Samtök atvinnulífsins styrktu gerð þáttanna. Þar er fjallað um hvað sprotafyrirtæki eru og helstu hindranirnar sem verða á vegi framkvæmdaglaðra einstaklinga sem vilja koma hugmyndum sínum í framleiðslu. Ferlið sem þessi nýju fyrirtæki fara í gegnum er mun meira en bara hugmyndin sjálf. Það þarf að þróa vöruna, sækja um einkaleyfi, kynna hugmyndina og fá fjármögnun auk þess að markaðssetja og selja vöruna eða þjónustuna.
Í þáttunum er tveimur teymum af ungum frumkvöðlum sem vinna með snjallar hugmyndir fylgt eftir og fylgst með helstu áskorunum og framgöngu þeirra. Búið er að frumsýna tvo þætti en þeir verða alls sex talsins.