Framsýni í fyrirrúmi
Lífeyrissjóðirnir eru taldir ein traustasta stoðin í íslensku samfélagi af öllum þeim alþjóðlegu stofnunum og aðilum sem fjalla um íslensk málefni. Grunnhugsun lífeyriskerfisins er að hver kynslóð spari fyrir sig og hefur það reynst afar farsælt fyrirkomulag og mun afstýra ómældum erfiðleikum í lífeyrismálum og skattlagningu á almenning og atvinnulíf þegar fram líða stundir.
Með fyrirkomulagi sjóðssöfnunar í íslensku lífeyrissjóðunum má ætla að vel yfir 50% af lífeyrisgreiðslum komi af tekjum af fjármagnsmarkaði en innan við helmingur verði framlög af vinnutekjum. Ef byggt væri á gegnumstreymi þar sem samtímaskattlagning á vinnumarkaði stæði undir lífeyrisgreiðslum yrði álagið óbærilegt þegar fram líða stundir.
Í mörgum nágrannalöndum er glímt við mikinn vanda í lífeyrismálum. Hlutfallslega fjölgar sífellt lífeyrisþegum á móti þeim sem eru á vinnumarkaði. Þar með aukast kröfur um hærri álögur á vinnumarkað, skerðingu á lífeyrisgreiðslum eða hækkun lífeyrisaldurs eða blöndu af öllu þessu. Lífeyriskerfi sem byggð hafa verið á samtíma skattlagningu á vinnumarkað eru að lenda uppi á skeri.
Mannfjöldaþróun á Íslandi er svipuð og í nágrannalöndunum þótt hún gerist aldarfjórðungi síðar en þar. Búast má við því að árið 2050 verði 27% þjóðarinnar 65 ára og eldri en þetta hlutfall er nú um 12%. Ennfremur má búast við því að árið 2050 verði 11% þjóðarinnar 80 ára og eldri sem er nokkuð svipað hlutfall og nú hefur náð 65 ára aldri. Árið 2050 má búast við því að rúmlega tveir verði á vinnualdri, eins og hann er nú, fyrir fyrir hvern einn sem er á lífeyrisaldri.
Íslenska lífeyriskerfið gerir þjóðina vel í stakk búna til þess að takast á við þau verkefni sem fylgja þessari þróun. Útgangspunktur í kerfinu er að inngreiðslur eru skattfrjálsar en útgreiðslur skattskyldar. Þetta þýðir að hver kynslóð er ekki aðeins að leggja ráðstöfunartekjur sínar til hliðar vegna framtíðarinnar heldur skattgreiðslurnar líka. Lífeyrisþegar framtíðarinnar verða því skattgreiðendur og leggja sitt af mörkum til þess að standa undir þeirri þjónustu sem þeir fá, t.d. heilbrigðisþjónustu sem stóraukin þörf verður fyrir.
Uppbygging lífeyriskerfis eins og hér á landi tekur marga áratugi. Það hefur verið að þróast smám saman í meira en 100 ár, stórt skref var stigið fyrir meira en 40 árum og svo mörg minni skref í kjölfarið. Enn á lífeyriskerfið eftir að þroskast og dafna. Nú koma 58% lífeyrisgreiðslna frá lífeyrissjóðum en 42% frá almannatryggingum. Lífeyrisgreiðslur almannatrygginga eru nú 4% af vergri landsframleiðslu sem er með því lægsta sem sést í velferðarríkjum.
Mörgum sem nú hefja töku lífeyris finnst þeir hafa slök lífeyrisréttindi úr lífeyrissjóðum. Ástæður þess geta verið ýmsar m.a. vegna þess að lengi var einungis greitt iðgjald af dagvinnu og jafnvel var þak á inngreiðslur. Nú er lágmarksiðgjald 12% af öllum launum. Lífeyrisréttindin úr lífeyrissjóðum verða því sífellt meiri eftir því sem nýir árgangar ná lífeyrisaldri. Eftir 20 til 30 ár koma lífeyrisgreiðslur að meginhluta úr lífeyrissjóðum en hlutverk almannatrygginga verður takmarkaðra en nú.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 12. nóvember 2012.