Framlög til almannatrygginga hafa tvöfaldast á sjö árum

Kórónuveirufaraldurinn hefur leitt til tekjufalls víða í hagkerfinu, þar með talið hjá ríkissjóði. Mörg tilfærslukerfi, þ.e. bótakerfi,  standa þó enn óhreyfð. Að óbreyttu munu framlög til almannatrygginga, að frátöldum atvinnuleysisbótum, nema 165 milljörðum króna á næsta ári eða um fjórðungi tekna ríkissjóðs miðað við uppfærða áætlun. Framlög til almannatrygginga hafa þá nær tvöfaldast á aðeins sjö árum. Útgjaldaaukning til málaflokksins skýrist helst af fjölgun lífeyrisþega og hækkun bóta en einnig af fjölgun örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Þeir eru nú um 4.300 fleiri en fyrir sjö árum, sem er um 25% aukning á tímabilinu. Örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar telja því nú 11% mannfjölda á vinnualdri, að innflytjendum undanskildum.

Ljóst er að ör vöxtur bótakerfisins er ekki sjálfbær án þess að til niðurskurðar komi í annarri opinberri þjónustu eða fjárfestingum hins opinbera á næstu árum. Nú, sem fyrr, er því mikilvægt að huga að því hvernig hagkerfið muni koma til með að standa undir almannatryggingum í framtíðinni með hækkandi lífaldri þjóðarinnar.