Framleiðendaábyrgð raftækjaúrgangs - skráning hafin
Frá 1. janúar 2009 bera framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja ábyrgð á réttri úrvinnslu raf- og rafeindatækjaúrgangs. Í ábyrgðinni felst að þeir skulu fjármagna og tryggja meðhöndlun úrgangsins og uppfylla skyldur sínar með rekstri eigin skilakerfis eða með aðild að sameiginlegu skilakerfi fleiri framleiðenda og innflytjenda. Ábyrgð á söfnun úrgangs nær til landsins alls án tillits til hvar varan er seld og skal allur raf- og rafeindatækjaúrgangur fara til meðhöndlunar.
Þann 1. október skulu framleiðendur og innflytjendur vera búnir að skrá sig í skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda hjá stýrinefnd raf- og rafeindaúrgangs eða eiga aðild að sameiginlegu skilakerfi á borð við RR-SKIL.
Tekið er á móti skráningum á netfangið styrinefnd@simnet.is. Skila skal inn upplýsingum um nafn, kennitölu og heimilisfang innflytjanda eða framleiðanda. Einnig er óskað eftir upplýsingum um áætlað magn innflutnings á ári og í hvaða flokka vörurnar falla en þeim er skipt í 10 flokka:
1. Stór heimilistæki
2. Lítil heimilistæki
3. Upplýsingatækni- og fjarskiptabúnaður
4. Neytendabúnaður
5. Ljósabúnaður
6. Raf- og rafeindatæki (að frátöldum stórum, föstum
tækjum til iðnaðar)
7. Leikföng og tómstunda-, íþrótta- og
útivistarbúnaður
8. Lækningatæki (að frátöldum ígræðsluvörum og vörum
sem bera smit)
9. Vöktunar- og eftirlitstæki
10. Sjálfsalar
Athygli er vakin á að refsivert er að sinna ekki ofangreindri skyldu um skráningu og fyrirtæki geta átt á hættu að fá dagsektir. Bent er á að þeir sem ekki eru aðilar að stærra skilakerfi verða að leggja fram fjárhagslega tryggingu vegna starfsemi sinnar. Nú þegar hefur verið stofnað sameiginlega skilakerfið RR-skil sem mun taka að sér ábyrgð á raf- og rafeindatækjaúrgangi og sjá um að uppfylla skyldur sinna félagsmanna.
Sjá nánar á vef RR-SKILA: http://www.rrskil.is/