Framfarir í hundrað ár
Eyjólfur Árni Rafnsson, var í dag endurkjörinn formaður Samtaka atvinnulífsins. Tilkynnt var um kjörið á aðalfundi SA fyrr í dag og hlaut Eyjólfur Árni 97% greiddra atkvæða. Ársfundur atvinnulífsins stendur nú yfir í Hörpu og ávarpaði formaður SA fundinn. Erindi hans er nú aðgengilegt hér á vef SA.
„Forsætisráðherra, félagar og samstarfsmenn, góðir gestir
Yfirskrift fundar okkar að þessu sinni er framfarir í 100 ár í tilefni þess að liðin er öld frá því Ísland varð frjálst og fullvalda ríki. Framfarirnar eru vissulega miklar og við sem höfum lifað drjúgan helming þessa tíma höfum getað fylgst með ótrúlegum breytingum á öllum sviðum. Fjölmargir núlifandi einstaklingar kynntust á eigin skinni harðri lífsbaráttu en jafnframt stórstígum framförum á fyrri hluta tímabilsins. Á þessum 100 árum hefur þjóðin brotist úr sárri fátækt og hafnir og vegir á fyrri hluta þeirra verðskulda vart að kallast jafn virðulegu heiti og innviðir. Þegar ég var að alast upp austur í Skaftafellssýslu voru sandarnir og jökulárnar austur í Öræfi óbrúaðar og ófærar að mestu, allmargir sveitabæir höfðu heimarafstöðvar og kolaeldavélar voru enn algengar. Hestar gegndu mikilvægu hlutverki smalahestsins og vegir voru víða troðningar sem týndust um leið og snjóa festi. Gamli einbreiði vegurinn um Eldhraunið með öllum sínum blindhæðum minnti einna helst á rússíbanann í Tívolíinu í Kaupmannahöfn. Í vindi mátti heyra söng símalínunnar sem hékk milli staura. Þessi söngur hefur þagnað og enginn saknar hans enda hafa þráðlaus samskipti og ljósleiðarar tekið við þeirra hlutverki.
Svona má lengi telja upp framfarir undanfarinna áratuga.
Þekkingin eykst stöðugt
Framfarir á fullveldistímanum má einkum þakka þrennu. Landið og hafið hefur reynst ákaflega gjöfult, beislun orkulindanna skapað mikla auðlegð og aukin þekking verið afl mikilla framfara. Það er sérstakt við þekkinguna að nýting hennar stuðlar að frekari vexti hennar. Þekkingin er auðlind sem stöðugt vex. Hún leiðir af sér öfluga nýsköpun og aukna samkeppnishæfni landsins.
Rannsóknir og þekking á hafinu og auðlindum þess hefur leitt til sjálfbærrar nýtingar fiskistofnanna og sífellt meiri verðmæta, nýsköpunar og tækniþróunar. Nýjar afurðir sem bæta heilsu og nýtast til lækninga hafa orðið til.
Það er sama hvort litið er til framleiðslu, þjónustu eða viðskipta, alls staðar eru framfarirnar byltingarkenndar og allar byggja þær á menntun, þekkingu og reynslu fólksins sem þar starfar.
Nýting orkulinda landsins hefur aukist jafnt og þétt og skilað ómældum ábata fyrir samfélagið allt, hvort sem litið er til efnahags eða umhverfis. Á þessu sviði eru Íslendingar í fararbroddi. Hingað er leitað eftir þekkingu á orkunýtingu, sjávarútvegi, landgræðslu og reyndar miklu fleiri sviðum.
Allt hefur þetta skapað þjóðfélag með einhverja mestu velmegun sem þekkist. Við lifum lengur en flestar þjóðir og búum við öfundsverðar aðstæður.
En samt fer hluti umræðu í þjóðfélaginu fram með neikvæðum formerkjum eins og hér sé allt í kalda koli. Sífelld leit fjölmiðla og samfélagsmiðla að krassandi fyrirsögnum og upphrópunum skapa bjagaða mynd af veruleikanum. Þetta er áhyggjuefni þótt ekki sé það séríslenskt vandamál.
Lengi var staðsetningu landsins gjarnan lýst þannig að hún væri eyja úti í ballarhafi og á mörkum hins byggilega heims. Á síðustu árum hefur þetta breyst og nú er svo komið að lega landsins getur orðið einn helsti styrkur í framfarasókn næstu áratuga. Breytingar í flugsamgöngum og skipaflutningum, áhugi á auðlindanýtingu á Norðurslóðum, sífellt meiri sókn eftir endurnýjanlegum orkulindum ásamt ásókn í hreint loft og vatn og fagra náttúru valda því að Íslendingar geta horft björtum augum fram á veg.
Frumkvæði einstaklinga ræður velsældinni
Það eru einstaklingar sem sækja fram og nýta þau tækifæri sem bjóðast. Konur og karlar stofna til rekstrar og leggja þar inn þekkingu sína, reynslu og eigin fjármuni til að skapa sér og sínum atvinnu við hæfi. Þau leggja mikið á sig til að allt gangi vel og takist það, þá efnast þau stundum vel og sjá að árangurinn var erfiðisins virði. Það er þó ekki alltaf efnislegi ávinningurinn sem veitir mesta gleði. Ánægjan felst ekki síst í að skapa eitthvað nýtt, byggja upp rekstur, veita þjónustu eða þróa nýja vöru og skapa störf. Þessu fólki þarf að búa góð skilyrði og gæta þess að drekkja því ekki í skriffinnsku og ónauðsynlegum reglum. Undir þessu fólki, frumkvöðlunum, er velsæld þjóðarinnar komin.
Kaupmáttur vex en óánægja líka
Undanfarin ár hefur kaupmáttur launa vaxið hér meira en áður hefur gerst á jafn skömmum tíma. Í kjarasamningum undanfarinn áratug hafa lægstu laun hækkað mun meira en þau sem hærri eru. Samt blasir við megn óánægja þeirra sem lægst hafa launin og ekki sýnt hvernig best er að bregðast við. Ein ástæða kann að vera sú að á sama tíma og launin skila meiri kaupmætti en áður hefur kerfisbundið dregið úr vægi persónuafsláttar, barnabóta og vaxtabóta auk þess sem ýmsar gjaldskrár fyrir opinbera þjónustu hafa hækkað mikið. Afleiðingin er sú að ráðstöfunartekjur þeirra lægst launuðu hafa ekki aukist eins og stefnt var að með kjarasamningunum.
Við þessu verður að bregðast. Vandanum verður augljóslega ekki mætt í kjarasamningum. Því verða stjórnvöld að efna þegar í stað til viðræðna um breytingar á tekjuskatts- og bótakerfum þannig að hugsanlegar úrbætur liggi fyrir áður en kjaraviðræður hefjast á haustmánuðum.
Kjararáð verði lagt niður
Úrskurðir kjararáðs um laun æðstu embættismanna og kjörinna fulltrúa hefur valdið megnri óánægju og usla í þjóðfélaginu. Ánægjulegt er að náðst hefur samstaða um að leggja kjararáð niður og að í staðinn taki laun þessara hópa framvegis breytingum í samræmi við þróun meðallauna ríkisstarfsmanna. Það, ásamt tímabundinni frystingu launa framangreindra hópa, getur leiðrétt misvægið sem leiddi af ákvörðunum kjararáðs. Það er nú í höndum löggjafans að lögfesta þessar tillögur.
Ábyrgð fyrirtækjanna er mikil
En við í atvinnulífinu þurfum einnig að horfa í eigin barm. Samtök atvinnulífsins telja mikilvægt að fyrirtæki taki alvarlega ábyrgð sína gagnvart lögum og reglum og að þau starfi í góðri sátt við umhverfi sitt og samfélag. Einn hluti er að fyrirtæki búi vel og rétt að starfsfólki sínu, annað er ólíðandi. Annar hluti er að launakjör æðstu stjórnenda séu hófleg, innan skynsamlegra marka og ofbjóði ekki réttlætiskennd almennings. Þótt stjórnendurnir séu mikilvægir þá byggist góður árangur í rekstri ekki síst á vinnu fjölda fólks sem sinnir störfum sínum af alúð og trúmennsku, almennu rekstrarumhverfi og ýmsum ytri skilyrðum.
Sérstaklega er mikilvægt að fyrirtæki sem eru skráð á almennan hlutabréfamarkað móti starfskjarastefnu fyrir stjórnendur sína og setji launum og aukagreiðslum skynsamleg mörk sem samræmast íslenskum veruleika. Við vitum öll að umræða um mjög há laun stjórnenda hefur áhrif. Stundum hefur tilhneigingin verið sú að bíða þess að umræðan hjaðni og líta þá svo á, að þar með sé málinu lokið. Það er hins vegar ekki svo. Á tímum nútíma fjölmiðlunar og samfélagsmiðla gleymist ekkert, umræðan hefur neikvæð áhrif, ekki einungis á viðkomandi fyrirtæki, heldur atvinnulífið í heild. Þess má geta að á Norðurlöndunum er það ekki liðið að forstjórar hækki umfram almenna launaþróun.
Átök á vinnumakaði framundan?
Forystumenn í nokkrum verkalýðsfélögum blása nú í herlúðra og virðast stefna að verkföllum þegar kjarasamningar renna út í byrjun næsta árs. Gamla símalínan syngur á ný. Því verður vart trúað að ætlunin sé að fórna miklum árangri undanfarinna ára, sérstakri hækkun lægstu launa og almennri kaupmáttaraukningu með átökum sem geta ekki leitt til annars en veikingar gengis krónunnar, verðbólgu, hærri vaxta og um leið lakari lífskjara fyrir alla. Þessa lexíu ættu allir að hafa lært af sögu undanfarinna áratuga. Við verðum ekki aftur jafn heppin og eftir síðustu kjarasamninga; vörugjöld og tollar verða ekki afnumin aftur af innfluttum vörum, tekjur af erlendum ferðamönnum munu ekki vaxa jafn hratt og síðustu fjögur ár og gengi krónunnar mun ekki halda áfram að styrkjast eins og áður, svo eitthvað sé nefnt. Það er kominn tími til að við lærum af reynslunni og beitum betri vinnubrögðum. Óraunsæjar stjórnmálahugmyndir og skilningsleysi á samhengi bætra kjara launþega og velgengni atvinnulífsins má ekki grafa um sig á nýjan keik.
Kjarasamningar á Norðurlöndum
Hvernig haga frændþjóðir okkar sér þegar að kjarasamningum kemur? Í Svíþjóð hafa launahækkanir kjarasamninga að jafnaði verið 2,5% undanfarin ár. Á síðasta ári voru gerðir kjarasamningar til þriggja ára sem fólu í sér samtals 6,5% hækkun launakostnaðar og er lægstu launum tryggð 2% hækkun á ári út samningstímann.
Í Danmörku voru einnig gerðir kjarasamningar á síðasta ári til þriggja ára sem fólu í sér hækkun lágmarkslauna um 5.000 íslenskar krónur á mánuði á hverju ári samningstímans. Undanfarin fimm ár hafa laun þar hækkað um 1,5-2% á ári og kaupmáttur aukist að jafnaði um hálft prósent á ári.
Til samanburðar þá hækka íslensk lágmarkslaun um 20.000 krónur þann 1. maí næstkomandi eða um 7% og hafa hækkað svipað undanfarin ár. Lágmarkslaunin hafa hækkað um 40% á samningstímanum og kaupmáttur lágmarkslauna um þriðjung, þegar með er talin hækkun þeirra um næstu mánaðamót.
Í Noregi náðist samkomulag fyrir viku síðan sem felur í sér 2,8% hækkun launakostnaðar á árinu. Launahækkanir þar hafa verið 2,5% á ári síðustu þrjú ár en kaupmáttur launa hefur minnkað nokkuð vegna veikingar norsku krónunnar. Fram kom að norsku Samtök atvinnulífsins gætu ekki gert kjarasamninga með svo auknum kostnaði að hann skaðaði samkeppnishæfni norskra fyrirtækja og að verkalýðshreyfingin hefði skilning á því.
Þessi lönd eru öll samkeppnisaðilar okkar Íslendinga á erlendum mörkuðum.
SA halda fast við breytt ferli við samninga
Samtök atvinnulífsins verða 20 ára á næsta ári. Við þau tímamót er við hæfi að líta inn á við. Huga þarf að skipulagi samtakanna og hvernig best megi skapa fyrirtækjunum í landinu samkeppnishæf og góð rekstrarskilyrði. Samtökin munu halda fast við fyrri ákvörðun um að ná fram breytingum á ferlinu við gerð kjarasamninga og byggja á vinnu sem samkomulag varð um árið 2015. Þeir kjarasamningar voru dýru verði keyptir og reyndust mörgum fyrirtækjum þungir í skauti. Við verðum að byggja á svipuðum aðferðum og reynst hafa vel á Norðurlöndum í áratugi. Þar ræður samkeppnisstaða útflutningsgreinanna og framleiðniaukning fyrirtækjanna því hversu miklar launahækkanir er samið um á hverjum tíma. Það hefur þýtt að kaupmáttur hefur aukist jafnt og þétt, ár frá ári, í smáum skrefum þrátt fyrir mun minni árlegar launahækkanir en hér þekkjast.
Hagvöxturinn hér á landi hefur verið góður um lengri hríð en oftast áður og því er runninn upp rétti tíminn til að snúa endanlega af braut endurtekinna kollsteypa og verðbólguskota. Þess í stað eigum við og verkalýðshreyfingin að taka höndum saman um að festa í sessi lága verðbólgu og stigvaxandi kaupmátt með betri afkomu fólks og fyrirtækja að leiðarljósi. Þessa leið vilja Samtök atvinnulífsins fara og munu ekki ljá máls á neinu öðru. Við treystum því að samningsaðilar okkar á vinnumarkaði og stjórnvöld séu þessu sammála.
Takk fyrir."