Framfarir í 100 ár

Þann 1. desember 1918 varð Ísland frjálst og fullvalda ríki. Á hundrað árum hefur öflugt íslenskt atvinnulíf lagt grunn að góðum lífskjörum og mikilli velsæld. Landsmenn geta verið stoltir af því á hundrað ára afmælisári sjálfstæðis og fullveldis Íslands.

Samtök atvinnulífsins óska Íslendingum til hamingju með áfangann en í Sjónvarpi atvinnulífsins er hægt að horfa á svipmyndir frá 1918. Hundrað ára ferðalag bjartsýnnar þjóðar hófst á þessu dramatíska ári. Frostaveturinn mikli þjarmaði að landsmönnum, ísbirnir gengu á land, Katla gaus og spænska veikin lagði um 500 Íslendinga að velli.

Einstaklingar og fyrirtæki tóku í kjölfar fullveldisins frumkvæði og nýttu tækifæri sem urðu til sem nýjar forsendur sköpuðu og uppskeran hefur verið ríkuleg.

Íslendingum hefur fjölgað verulega á einni öld, en við vorum aðeins 91 þúsund árið 1918 en teljum nú rúmlega 355 þúsund.

Lífslíkur Íslendinga hafa aukist umtalsvert eða um 26 ár hjá konum og 28 ár hjá körlum. Árið 1918 voru lífslíkur karla aðeins tæplega 53 ár og um 58 ár hjá konum.

Ungbarnadauði sem var algengur árið 1918 er hverfandi í dag vegna mikilla framfara og aukinna lífsgæða.

Og atvinnuþátttaka kynjanna hefur jafnast og jafnrétti aukist. Atvinnuþátttaka kvenna hefur tvöfaldast á 100 árum en atvinnuþátttaka karla dregist saman um 8% á liðinni öld.