Framfærsluuppbót TR grefur undan lífeyriskerfinu

Bótakerfi Tryggingastofnunar (TR) er flókið og vart á færi annarra en sérfræðinga að skilja það. Bótaflokkar ellilífeyrisþega eru fjórir og hafa hver um sig mismunandi skerðingarhlutföll gagnvart tekjum og mishá frítekjumörk. Auk þess hafa almannatryggingar þróast á þann veg að vega að undirstöðum lífeyrissparnaðar og lífeyrissjóðanna. Undanfarið ár hefur nefnd verið að störfum sem hefur m.a. það mikilvæga verkefni að einfalda kerfið og lagfæra það sem úrskeiðis hefur farið. Brýnt er að hún skili tillögum fljótlega um framtíðarskipan lífeyrismála TR og samspilið við lífeyrissjóðina.

Þar til í september 2008 voru bótaflokkar ellilífeyrisþega þrír, þ.e. grunnlífeyrir, tekjutrygging og heimilisuppbót (til þeirra sem búa einir). Þá setti félags- og tryggingamálaráðherra reglugerð á grundvelli laga um félagslega aðstoð þar sem fjórði bótaflokkurinn, sérstök uppbót til framfærslu, var tekinn upp. Tekjur lífeyrisþegans, t.d. úr lífeyrissjóði, skerða framfærsluuppbótina um jafn háa upphæð. Skerðingin er 100% vegna annarra tekna en bóta TR. Þótt ásetningurinn með uppbótinni hafi eflaust verið góður þá er ásýnd hennar þannig að meiri hluti lífeyrisþega sér engan ávinning af réttindum sínum í lífeyrissjóðum.

Grundvallarforsendum lífeyriskerfisins var breytt með reglugerð

Ráðherra ákvað að framfærsluuppbótin skyldi vera 14.000 kr. á mánuði frá 1. september 2008 fyrir ellilífeyrisþega sem býr einn og hámarksbætur til hans næmu þannig 150.000 kr. á mánuði. Þá voru lágmarkslaun á vinnumarkaði 145.000 kr. á mánuði og urðu hámarksbætur TR því hærri en lágmarkslaun fyrir 40 stunda vinnuviku. Uppbótin var síðan hækkuð í 31.000 kr. frá janúar 2009 og urðu hámarksbætur TR þá 180.000 en lágmarkslaun voru 157.000 kr. frá 1. júlí það ár. Framfærsluuppbótin nemur rúmum 36 þús. kr. á árinu 2012 fyrir þann sem býr einn og hámarksbætur TR eru 203 þús. kr., samanborið við  193 þús. kr. lágmarkslaun.

Framfærsluuppbótin er tiltölulega ódýr aðferð fyrir ríkið til að styðja þá lífeyrisþega sem engar tekjur hafa, engin lífeyrisréttindi í lífeyrissjóðum og engar fjármagnstekjur. Á árinu 2011 fengu rúmlega fimm þúsund af rúmlega 41 þúsund lífeyrisþegum greidda einhverja framfærsluuppbót, eða 13% þeirra.

Enginn ávinningur af 73.000 kr. mánaðargreiðslu úr lífeyrissjóði

Framfærsluuppbótin með 100% tekjuskerðingu, að viðbættum tekjuskerðingum tekjutryggingar og heimilisuppbótar, hefur í för með sér að lífeyrisþegi hefur engan ávinning af 73.000 kr. tekjum á mánuði úr lífeyrissjóði. Lífeyrisþeginn heldur einungis 7.000 kr. eftir tekjuskatt af 100.000 kr. greiðslu. Þessu verður að breyta ef samstaða á ekki að rofna um lífeyriskerfið hér á landi.

Einföldun og aukið gegnsæi felst í fækkun bótaflokka og skerðingarhlutfalla vegna tekna. Mest einföldun felst í sameiningu allra bótaflokka, hafa eitt skerðingarhlutfall vegna aukinna tekna og ekkert frítekjumark. Sú leið kostar ríkissjóð mikið fé og felur í sér stóraukinn stuðning við lífeyrisþega, en að því gefnu að ekki sé vilji til þess að lækka greiðslur til lífeyrisþega með því að afnema framfærsluuppbótina, er ekki önnur leið fær. Vegna mikils kostnaðar við slíkar breytingar verður það þó ekki gert nema í áföngum á allmörgum árum.

Hannes G. Sigurðsson

Fréttabréf SA: Af vettvangi í júní 2012