Frá Kyoto til Kárahnjúka
Á vef Samtaka atvinnulífsins birtast um þessar mundir pistlar þar sem ljósi er varpað á að Ísland stendur vel að vígi í loftslagsmálum. Í fyrsta lagi hefur verið fjallað um að landið stendur einna best allra ríkja að vígi við að ná markmiðum samkvæmt Kyoto-bókuninni ef miðað er við útstreymi árið 2003 og heimildir til losunar 2008-2012. Í öðru lagi hefur verið bent á að miðað við útstreymi í hlutfalli við landsframleiðslu er Ísland í einu af lægstu sætum allra ríkja og að dregið hefur mjög úr losun frá árinu 1990 á þennan mælikvarða.
Aðild að loftslagssamningi SÞ
Meginástæða hlýnunar andrúmsloftsins er talin vera útstreymi gróðurhúsalofttegunda við brennslu jarðefnaeldsneytis - kola, olíu og gass -bæði í orkuverum við rafmagnsframleiðslu og farartækjum. Til að bregðast við þessum vanda hafa nær öll ríki heims gert með sér svonefndan loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland er einnig aðili að, og öðlaðist gildi árið 1994. Markmið samningsins er að halda styrk gróðurhúsalofttegunda innan ákveðinna marka þannig að komið verði í veg fyrir hættulega röskun á loftslagskerfi jarðar. Grunnforsenda samningsins er sú að ríki hafa óskoraðan rétt til að hagnýta auðlindir sínar og er það í samræmi við stofnskrá Sameinuðu þjóðanna. Hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna byggir á sömu forsendu.
Upphaf Kyoto og Ísland
Þegar Kyoto-bókunin við loftslagssamninginn var gerð var ákveðið að stemma stigu við útstreymi gróðurhúsalofttegunda nokkurra vestrænna ríkja og miða við það magn sem losað var árið 1990. Þróunarríkin voru og eru undanþegin og vegna bágrar efnahagsstöðu fyrrum austantjaldsríkja eru heimildir þeirra til losunar mjög rúmar.
Ekki eru lagðar neinar hömlur á það í loftslagssamningnum eða Kyoto-bókuninni hvað einstök ríki geta nýtt af kola-, gas- og olíuauðlindum sínum. Þannig geta Norðmenn haldið áfram að dæla upp olíu og gasi án þess að hafa af því áhyggjur vegna þess að útstreymi gróðurhúsalofttegunda lendir öll hjá notendaríkjunum. Á sama hátt geta ríki sem eru tengd raforkumarkaði Evrópu selt raforku inn á sameiginlegt kerfi í þeirri vissu að losun gróðurhúsalofttegunda, sem verður til við notkunina, er þeim óviðkomandi. Þessa möguleika eiga Íslendingar ekki, orku þjóðarinnar verður að nýta heima.
Sérstaða orkulinda Íslands
Orkulindir Íslands hafa því sérstöðu samanborið við orkulindir nágrannaþjóða okkar þar sem þeim verður ekki komið á tanka, eins og olíu og gasi norskra frænda okkar, og orkan verður heldur ekki leidd um rör eða streng til nálægra landa, a.m.k. ekki sem stendur. Eini möguleikinn sem við eigum til útflutnings þessara auðlinda er að koma orkunni í einhvern þann búning að unnt sé að flytja hana úr landi. Takmarki alþjóðasamningar nýtingu íslenskrar orku og umbreytingu hennar í útflutningsverðmæti, þá jafngildir það í raun því að segja að Íslendingar megi aðeins nýta orkuna til eigin nota - til framleiðslu á vörum til eigin neyslu. Allt eins mætti þá segja að okkur sé heimilt að veiða fiskinn í hafinu umhverfis landið svo lengi sem við torgum honum sjálf! Þegar einnig er haft í huga að nýtingu endurnýjanlegra orkulinda hér á landi fylgir lítið útstreymi gróðurhúsalofttegunda þá er það beinlínis í andstöðu við markmið loftslagssamningsins og grunnforsendur hans að takmarka nýtingu íslenskra orkulinda. Þess vegna var það alveg óhugsandi fyrir Ísland að gerast aðili að Kyoto-bókuninni án þess að þessi sérstaða væri viðurkennd.
Kol í stað Kárahnjúka?
Í ljósi sérstöðu Íslands er áhugavert að skoða hver gætu verið umhverfisáhrif raforkuframleiðslu með kolum sem jafngilti orkuvinnslugetu Kárahnjúkavirkjunar, en hún er talin verða um 4.600 GWh (gígavattstundir) á ári. Talið er að það þurfi tæpar 1,5 milljónir tonna af kolum á hverju ári til þess að framleiða þessa raforku og er þá miðað við 40% nýtingu orkuinnihalds kolanna. Á 100 árum þyrfti þannig að flytja til 150 milljónir tonna af kolum, auk annars jarðvegs, en kolabingurinn svarar til fjalls sem er rúmir 500 metrar á lengd, breidd og hæð. Í öðru lagi yrði losun gróðurhúsalofttegunda um 4,6 milljónir tonna á ári. Þessa tölu má bera saman við heildarlosun Íslendinga á árinu 2003, sem var 3,5 milljónir tonna, en þar er um að ræða bæði alla almenna losun og þær heimildir sem búið var að nýta af íslenska ákvæðinu svokallaða við Kyoto-bókunina. Með öðrum orðum þá er útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá kolakyntu raforkuveri með sömu framleiðslugetu og Kárahnjúkavirkjun 30% meira en Íslendingar losa á einu ári. Þetta samhengi má jafnframt setja þannig fram að álver sem fær orku úr brennslu kola stuðlar að allt að fimm sinnum meiri útblæstri gróðurhúsalofttegunda en álver sem fær orku frá vatns- eða gufuaflsvirkunum.
Takmörkun ekki skynsamleg
Þegar ofangreindar tölur eru skoðaðar vekur athygli að ekki skuli hafa verið fjallað um alþjóðleg áhrif Kárahnjúkavirkjunar í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum sem finna má á vef virkjunarinnar. Eins er alveg ljóst að það er alls ekki skynsamlegt frá alþjóðlegum umhverfissjónarmiðum að takmarka nýtingu endurnýjanlegra orkulinda hér á landi þar sem slík nýting er mjög vel til þess fallin að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu.
Þegar kemur að því að íhuga þær skuldbindingar sem Íslendingar taka á sig eftir að tímabil Kyoto-bókunarinnar hefur runnið sitt skeið í árslok 2012, þá ætti það að vera sjálfgefið að ekki verði lagðar kvaðir á nýtingu endurnýjanlegra orkulinda hér á landi, enda er það beinlínis í andstöðu við grunnforsendur loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna eins og hér hefur verið sýnt fram á.