Formaður SA: „Við erum öll landkynnar“
Björgólfur Jóhannsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, setti rétt í þessu opinn umræðufund Samtaka atvinnulífsins um uppgang og áskoranir í íslenskri ferðaþjónustu. Mikill áhugi er á fundinum og hvert sæti skipað í Hörpu. Greining efnahagssviðs SA á ferðaþjónustunni er kynnt á fundinum og framundan eru umræður helstu stjórnmálaflokkanna um stefnumörkun þeirra í aðdraganda Alþingiskosninga 2016. Ávarp Björgólfs má lesa í heild á vef SA en hann lagði mikla áherslu á að samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar verði tryggð á Íslandi til framtíðar.
Landkynnar
"Ráðherra, aðrir stjórnmálamenn og góðir gestir
Með lögum nr. 33 frá 1. febrúar 1936 var sett á stofn skrifstofa í Reykjavík er nefndist Ferðaskrifstofa ríkisins. Skyldi hún veita fræðslu um landið innanlands og utan. Skrifstofan hafði með höndum leiðbeiningar og fyrirgreiðslu innlendra og erlendra ferðamanna og eins og segir í lögunum „hefir hún ein rétt til að starfrækja ferðaskrifstofu fyrir erlenda menn“. Þessi einkaréttur hélst að nafninu til í um þrjá áratugi. Það er þó rétt að geta þess að lagaákvæðin voru numin úr gildi á meðan ófriðurinn mikli geysaði.
Smám saman dró ríkið sig út úr ferðaskrifstofurekstri og hætti einnig afskiptum af rekstri flugfélaganna. Nú er séð fram á tugmilljarða króna fjárfestingu til að bæta þjónustu við flugfarþega á Keflavíkurflugvelli á næstu árum og til að halda í við fjölgun þeirra. Fram að þessu hafa þær átt sér stað undir hatti Isavia sem er að fullu í eigu ríkisins. Þessar fjárfestingar eru í eðli sínu áhættusamar og nauðsynlegt er orðið að skipta rekstri Isavia upp þannig að rekstur flugstöðvar og tengdrar þjónustu verði sjálfstæður og að ríkið beri ekki ábyrgð og áhættu af þeirri uppbyggingu. Eðlilegt er að ríkið eigi flugbrautirnar sjálfar en að þjónustan við ferðamenn og vöruflutninga verði á ábyrgð annarra.
Þegar Ferðaskrifstofa ríkisins tók til starfa var fyrsti og eini starfsmaður Ragnar E. Kvaran sem áður hafði meðal annars verið prestur hjá Vestur - Íslendingum. Starfsheiti Ragnars var landkynnir.
Ferðamönnum fjölgar nú sem aldrei fyrr. Það er mikið verkefni fyrir ferðaþjónustuna að sjá til þess að upplifun flestra þeirra sem koma sé jákvæð, að ferðamennirnir hverfi héðan með það í huga að vel hafi verið tekið á móti þeim og að þeir hafi notið þess umhverfis sem þeir sóttu heim.
Á sama hátt hvílir ferðaþjónustan á velvild Íslendinga og að þeir skynji að allir þessir ferðamenn bæta afkomu fólks, fyrirtækja, sveitarfélaga og ríkisins. Ferðamennirnir hafa góð áhrif á hag allra.
Það er ferðaþjónustunni nauðsynlegt að það ríki jákvætt viðhorf í hennar garð og það hefur ítrekað komið fram í könnunum að almenningur er jákvæður gagnvart greininni. En það er ekki hægt að ganga að því vísu.
Ferðaþjónustan hefur dregið vagninn í efnahagsuppsveiflu undanfarinna ára á Íslandi. Á þessu ári er gert ráð fyrir að ferðaþjónustan afli yfir 400 milljarða kr. í útflutningstekjur og að hlutur hennar í heildarútflutningstekjum verði um 34%. Það má rekja um eitt af hverjum þremur störfum sem skapast hafa í hagkerfinu frá 2010-2015 til ferðaþjónustunnar. Ísland er í 18 sæti af 141 landi yfir samkeppnishæfustu ferðamannalönd heims samkvæmt World Economic Forum. Við stöndum því frammi fyrir miklum tækifærum en einnig áskorunum.
Þær tekjur sem flug- og ferðaþjónusta skapa í íslensku samfélagi skipta hundruðum milljarða króna. Tekjur ríkissjóðs hafa aukist svo milljörðum skiptir undanfarin ár vegna aukins umfangs greinarinnar. Þess vegna getur umræða um ferðaþjónustuna ekki snúist eingöngu um aukna gjaldtöku. Mikilvægasta verkefnið hlýtur að vera að tryggja samkeppnishæfni ferðaþjónustu á Íslandi til framtíðar þannig að hún dafni sem atvinnugrein til lengri tíma litið.
Stefnumörkun greinarinnar og samstarf við stjórnvöld hlýtur að miðast við að greina tækifæri og hættur sem fram undan eru eða geta verið bæði í upplifun ferðamanna og eins í samskiptum þeirra við heimamenn. Þess vegna býð ég fulltrúa helstu stjórnmálaflokka velkomna til viðræðna um helstu áherslur þeirra í tengslum við ferðaþjónustunnar.
Við erum öll landkynnar."
Björgólfur Jóhannsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, á opnum umræðufundi SA um ferðaþjónustuna, Áfangastaðurinn Ísland, í Hörpu 7. september 2016.
Tengt efni:
Greining efnahagssviðs SA á ferðaþjónustunni (PDF)