Flugumferðarstjórar vilja tvöfaldar launahækkanir
Yfirvinnubann flugumferðarstjóra hefur valdið mikilli röskun á samgöngum, óþægindum farþega og tjóni flugfélaga. Kjaradeila flugumferðarstjóra og SA er í hnút en þeim hafa verið boðnar sambærilegar launahækkanir og þorri vinnumarkaðarins hefur samið um á grundvelli SALEK-samkomulagsins. Flugumferðarstjórar vilja hins vegar meira. „Þeir hafa staðið fastir á sínu og ég held að það sé óhætt að segja að það séu tvöfalt meiri hækkanir en aðrir hópar hafa fengið,“ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í samtali við Morgunblaðið í dag.
Hjá Icelandair hefur bannið valdið seinkunum um 1.200 flugferða og haft áhrif á 200 þúsund farþega. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu en hjá WOW hefur bannið einnig haft umtalsverð áhrif.
„Það verður að bregðast við þessu með einhverjum hætti. Við erum að sjá dag eftir dag, viku eftir viku, að meirihluti flugs til og frá landinu er settur úr skorðum,“ sagði Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair í samtali við mbl.is.
Samkvæmt upplýsingum Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) þá hefur orðið seinkun á nærri eitt hundrað flugferðum til og frá landinu á um tveimur mánuðum og orðið til þess að 20 þúsund farþegar hafa ekki komist ferða sinna. Áhrifin eru þó mun víðtækari eins og kemur fram í umfjöllun Morgunblaðsins í dag.
„Áætlunarflug um Keflavíkurflugvöll raskaðist mikið í fyrrinótt og gærmorgun vegna yfirvinnubanns flugumferðarstjóra. Þar sem tveir flugumferðarstjórar voru veikir var þjónusta á vellinum takmörkuð við sjúkra- og neyðarflug frá kl. tvö til sjö í gærmorgun. Þetta leiddi til verulegra seinkana á flugferðum, en af 27 brottförum voru aðeins þrjár á áætlun.
Þetta er í fjórða sinn sem flug raskast af þessum sökum og áætlunarflug liggur niðri eftir að yfirvinnubann flugumferðarstjóra hófst. Þá hafa raskanir valdið keðjuverkunum fram eftir degi á áætlanir flugfélaga.
Einnig hefur komið nokkrum sinnum til þess að íslenska flugumsjónin hefur ekki getað sinnt öllu flugi um íslenska flugstjórnarsvæðið og þurft að beina flugvélum á flugi milli Evrópu og N-Ameríku sunnar, með tilheyrandi truflunum og við- bótar eldsneytiskostnaði fyrir flugfélög. Skv. upplýsingum Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa Isavia, hafa IATA, Alþjóðasamtök flugfélaga í áætlunarflugi, lýst áhyggjum sínum við Isavia vegna þessa.“
Samtök ferðaþjónustunnar lýsa yfir verulegum áhyggjum vegna þeirra áhrifa sem yfirvinnubann flugumferðastjóra hefur haft á íslenska ferðaþjónustu og hvetja til þess að lausn verði fundin á deilunni.
„Samtök ferðaþjónustunnar telja óásættanlegt að ferðaþjónustunni og almannahagsmunum sé stefnt í voða með þeim hætti sem raun ber vitni. Þriðja sumarið í röð hefur ferðaþjónustan þurft að búa við þær aðstæður að fámennir hópar launþega hafa valdið miklum vandræðum og haft atvinnugreinina og samgöngur til og frá landinu í hendi sér í kjarabaráttu sinni. Öruggar samgöngur til og frá landinu er eitthvað sem verður að vera hægt að treysta á. Ímynd og orðspor Íslands sem áfangastaðar fyrir ferðamenn er í húfi og mikilvægt að stöðugleiki ríki í samgöngum. Þannig verður að eyða allri óvissu fyrir ferðaþjónustuna og landsmenn alla hið fyrsta.“
Tengt efni: