Flokkarnir hafa talað - fyrri hluti
Efnahagsmál, vinnumarkaðurinn og atvinnulífið
SA hafa birt áherslur sínar undir yfirskriftinni Höldum áfram þar sem farið er yfir áskoranir og lausnir í íslensku samfélagi. Skoðað var hversu vel áherslur stjórnmálaflokkanna fara saman við áherslur atvinnulífsins í helstu málaflokkum. Til skoðunar voru stefnur þeirra stjórnmálaflokka sem mælast með meira en 1% fylgi í nýlegum skoðanakönnunum. Þetta eru Flokkur fólksins, Framsóknarflokkur, Miðflokkurinn, Píratar, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkur, Sósíalistaflokkur Íslands, Viðreisn og Vinstri græn. Stuðst var við efni sem var aðgengilegt á heimasíðum stjórnmálaflokkanna. Hér verða tekin fyrir efnahagsmál, vinnumarkaður og atvinnulíf.
Efnahagsmál - Skattar
Gagnsæ og hófleg skattastefna er lykilþáttur í átt að markmiði um eftirsóknarvert rekstrarumhverfi. Nær hvergi meðal OECD ríkja eru skatttekjur hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu meiri en hér. Að auki er Ísland með skattkerfi sem stenst illa alþjóðlega samkeppni að mati óháðra aðila. Áherslur atvinnulífsins í efnahagsmálum miða meðal annars að því að lækka skatta og einfalda skattkerfið.
Hvar standa stjórnmálaflokkar í þessum efnum? Tillögum til skattkerfisbreytinga fylgir sjaldnast tölulegt mat á áhrifum á ríkissjóð og því hægara sagt en gert að meta efnahagsleg áhrif af tillögum flokkanna til skattabreytinga. Samtök atvinnulífsins brugðu á það ráð að telja fjölda tillagna flokkanna til skattabreytinga og meta hvort þær leiddu til hærri eða lægri skatta og hvort breytingarnar væru til þess fallnar að flækja eða einfalda skattkerfið.
Alls voru 28 tillögur til skattalækkana og 25 tillögur til skattahækkana. Sumir flokkar leggja meiri áherslu á skattahækkanir á meðan aðrir hneigjast fremur að skattalækkunum. Talningin segir aðeins lítinn hluta sögunnar um áhrif þessara tillagna á ríkissjóð, efnahagslífið og þar af leiðandi lífskjör almennings.
Fæstar af þeim skattahugmyndum sem má finna hjá flokkunum eru nýjar af nálinni, þó einhverjar séu allt að því frumlegar og aðrar fengnar að láni úr löngu liðinni fortíð.
Þegar kemur að skattahækkunum hafa meðal annars verið bornar fram tillögur um; að hækka skatta á sjávarútveg, endurvekja bankaskattinn, nýjan auðlegðarskatt, hækka skatta á stór og/eða mengandi fyrirtæki, skattleggja sjálfvirknivæðingu, skattleggja sérstaklega húsnæði án fastrar búsetu, skattleggja þjónustugreiðslur til lágskattasvæða og hækkun hátekjuskatts.
Tillögur til skattalækkana felast einkum í; hækkun skattleysismarka, hækkun persónuafsláttar, lækkun skatta á lægri laun, lækkun skatta á minni fyrirtæki og sprota, lækkun tryggingagjalds, ívilnunum vegna grænna fjárfestinga og lækkun virðisaukaskatts á nauðsynjavörur.
Þá hafa verið viðraðar hugmyndir um þrepaskipt tryggingagjald eftir stærð fyrirtækja eða ólíkt tryggingagjald eftir byggðarlögum.
Mikilvægt er að skattabreytingar sem ráðist er í séu vel ígrundaðar, skekki ekki hvata og séu til þess fallnar að hvetja til atvinnusköpunar og bættra lífskjara almennings. Ítarlegri tillögur SA um efnahagsmál má lesa hér.
Vinnumarkaðurinn – nýtt kjarasamningslíkan
Á íslenskum vinnumarkaði er samningagerð mun óskilvirkari en á hinum Norðurlöndunum og er að auki til þess fallin að valda höfrungahlaupi launa og verðbólgu. Þessi vítahringur er ekki til þess fallinn að auka kaupmátt almennings. Endurbætur þurfa að eiga sér stað á kjarasamningslíkaninu sem stuðla að launaþróun í takt við verðmætasköpun og þar af leiðandi þjóðhagslegum stöðugleika og lægra vaxtastigi.
Stefnumál stjórnmálaflokkanna varðandi vinnumarkaðinn eru misfyrirferðarmikil í áherslum þeirra. Þrír flokkanna nefna vinnumarkaðinn ekki með beinum hætti í kosningaáherslum sínum og ekki heldur á heimasíðum sínum. Aðrir flokkar nefna vinnumarkaðinn með einum eða öðrum hætti en aðeins einn flokkur, Sjálfstæðisflokkur, hefur það sem skýran hluta af stefnu sinni að stuðla að endurbótum á kjarasamningalíkaninu í takt við áherslur SA. Þar að auki er ákveðna áherslu að finna í stefnumálum Samfylkingar og Vinstri grænna sem virðast eiga að skjóta traustari fótum undir kjarasamningagerð á vinnumarkaði. Þó eru önnur atriði í stefnu þeirra sem eru að mati SA í andstöðu við þetta markmið, svo sem þau atriði er snúa beint að stuðningi við ákveðnar kröfur stéttarfélaga sem haldið hefur verið á lofti án tillits til efnahagslegra aðstæðna.
Samtök atvinnulífsins leggja áherslu á að stuðst sé við norrænar fyrirmyndir þegar kemur að kjarasamningagerð, þar sem mikilvægar umbætur á undanförnum áratugum hafa leitt til þess að launaþróun endurspeglar verðmætasköpun mun betur en hér á landi. Þar hefur enda verðbólga mælst minni og vaxtastig lægra. Það hlýtur að vera sameiginlegt markmið aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda að betri lífskjör hvíli á traustum efnahagslegum stoðum. Nýtt vinnumarkaðslíkan er leið í átt að því markmiði. Ítarlegri tillögur SA má lesa hér.
Atvinnulífið – aðgengileg stjórnsýsla
Óþarflega flókið og íþyngjandi regluverk, þunglamaleg stjórnsýsla og óskilvirkt eftirlit hamlar rekstri fyrirtækja og dregur úr hvata til fjárfestinga. Það eru hins vegar fjárfestingar í atvinnulífi og innviðum sem skapa þau verðmæti og störf sem standa fyrir skatttekjum ríkis og sveitarfélaga og grunnþjónustunni sem þau veita. Afnema ætti þær hindranir í starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja sem eru umfram þær sem þekkjast hjá nágrannaþjóðum. Þá er löngu tímabært að nútímavæða þjónustu hins opinbera við einstaklinga og fyrirtæki.
Þrátt fyrir að alþjóðlegur samanburður gefi til kynna að Ísland geti gert mun betur þegar kemur að skilvirkni í regluverki og þjónustu hins opinbera eru ekki margir stjórnmálaflokkar sem leggja sérstaklega til umbætur á þeim sviðum. Einungis fjórir flokkar tilgreindu sérstaklega nauðsyn umbóta þegar kemur að regluverki og/eða stafrænni þjónustu; Miðflokkurinn, Píratar, Sjálfstæðisflokkurinn og Viðreisn.
Greining OECD gefur til kynna að með umbótum á regluverki eingöngu í ferðaþjónustu og byggingariðnaði gætum við sótt um 1% af landsframleiðslu eða um 30 milljarða í aukna verðmætasköpun. Því er til mikils að vinna og ýmis tækifæri fyrir stjórnmálamenn að leggja fram gagnlegar tillögur í þessum efnum. Ítarlegri tillögur SA um áskoranir og lausnir í íslensku atvinnulífi má lesa hér.
Styrkar stoðir efla verðmætasköpun
Til að atvinnulíf þrífist sem best þurfa ákveðnir grunnþættir að vera til staðar. Skattheimta á að vera einföld og skiljanleg og henni þarf að vera stillt í hóf. Launahækkanir í takt við verðmætasköpun stuðla að verðbólgu nálægt markmiði og ásættanlegu vaxtastigi. Þá þarf opinber stjórnsýsla að vera aðgengileg og ávinningur af regluverki þarf að vera meiri en kostnaðurinn. Styrkar stoðir í efnahagslífinu leiða til aukinnar verðmætasköpunar og þar af leiðandi betri stöðu ríkissjóðs og heimila. Lesa má nánar um 21 áskorun og lausn á heimasíðu SA, undir yfirskriftinni Höldum áfram.