Flóðbylgja fjárfestinga í sjávarútvegi

„Miklar fjárfestingar í sjávarútvegi að undanförnu hafa ekki farið framhjá þeim sem fylgjast með greininni. Nýbyggingar skipa, sem maður veit að eru í farvatninu, nema tugum milljarða. Það er margt nýtt og spennandi að gerast í þessari, ég held að sé óhætt að segja, flóðbylgju fjárfestinga.“ Þetta sagði Ólafur Helgi Marteinsson, varaformaður LÍÚ og framkvæmdastjóri Ramma og Primex í upphafi erindis síns á Sjávarútvegsdeginum sem fram fór í vikunni. Hann sagði fyrirtækin fara nýjar en ólíkar leiðir. Ný kælitækni hafi verið kynnt til sögunnar ásamt fullkomnum vinnslulínum sem tryggi hámarksgæði afurðanna ásamt ýmsum fleiri nýjungum.

Ólafur velti fyrir sér starfsumhverfinu, stjórnmálunum og ástæðum þess að fjárfestingar hafa nú tekið við sér svo um munar.

„Þó það sé nokkur einföldun þá má segja að síðast þegar viðlíka flóðbylgja fjárfestinga reið yfir hafi verið á tíunda áratug síðustu aldar. Því er ekki úr vegi að gera lauslegan samanburð á aðstæðum þá og nú. Er það eitthvað sérstakt umfram annað sem hrindir svona fjárfestingarbylgjum af stað? Þó að þessi samanburður minn sé einungis byggður á minni sýn á þetta, frekar en einhverri djúpköfun, þá held ég að það sé ágætt að hugleiða þetta aðeins. Ekki síst vegna þess að samfella í tækni og afurðaþróun er æskilegri en stór stökk með löngu millibili.

Í ársbyrjun 1991 tóku gildi lög sem heimiluðu frjálst framsal aflaheimilda - og svona í framhjáhlaupi má geta þess að þá var við stjórnvölinn á Íslandi vinstristjórn sem bæði Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon sátu í. Þessi breyting á laga- og þar með starfsumhverfi, ollu straumhvörfum í sjávarútvegi. Almenn bjartsýni ríkti um að leikreglur hefðu verið settar til framtíðar.“

Hvert af öðru voru sjávarútvegsfyrirtækin skráð á hlutabréfamarkað. Í kjölfarið hófst mikil samþjöppun í greininni og fyrirtækin stækkuðu og efldust. Ólafur bendir á að fjárfestingin hafi fyrst og fremst verið innan greinarinnar, óhagkvæmari einingar hafi verið keyptar upp og betri nýting framleiðslutækja hafi verið leiðarstefið.

„Ég get tekið dæmi af mínu fyrirtæki. Ég held við höfum farið í gegnum a.m.k. 16 sameiningar eða yfirtökur á þessum tíma og úrelt á milli 20 og 30 skip og sameinað aflaheimildir þeirra á önnur. Það voru bjartsýnistímar og menn höfðu trú á því að lagaumgjörðin væri varanleg. Það var mikið áræði í fyrirtækjunum að gera breytingar, m.a. í markaðsmálum. Með frjálsa framsalinu urðu fyrirtækin stærri og sterkari og þeim gafst betra tækifæri til þess að aðlaga veiðar, vinnslu og framboð að þörfum markaðarins. Þorskblokkir, til áframvinnslu í verksmiðjum erlendis, viku nær alveg fyrir ferskum og frosnum flökum og flakabitum. Framleiðslufyrirtækin tóku sölu- og markaðsmál í auknum mæli í sínar hendur í stað þess að selja í gegnum gömlu sölusamtökin. Þetta er þróun sem sér ekki fyrir endann á.“

undefined

Ólafur sagðist draga upp einfaldaða mynd og hann væri meðvitaður um að þetta ætti ekki við, nema að litlu leyti, við það sem í daglegu tali er kallað uppsjávarveiðar og  -vinnsla. Ólafur leitaði svara við því hvers vegna fjárfesting í sjávarútvegi sé nú að aukast.

„Getum við sagt að stöðugt lagaumhverfi og örugg framtíðarsýn sé hvatinn nú? Varla. Greinin hefur búið við linnulítinn óhróður og átök megnið af 21. öldinni. Steininn tók svo úr í tíð síðustu ríkisstjórnar og væri það einungis að æra óstöðugan að spinna þann þráð lengra. En breyttist eitthvað með nýrri ríkisstjórn sem eykur mönnum svona bjartsýni? Harla lítið enn sem komið er. Að vísu er óvildin horfin og fyrir það ber að þakka. Við búum hins vegar enn við fullkomna óvissu um lagaumhverfi og á ýmsum sviðum hefur stjórnarmeirihlutinn gengið ansi nærri lagabókstafnum þegar atkvæðaveiðarar hafa þurft að auka í potta og færa aflaheimildir til skjólstæðinga sinna. Sú ályktun verður því tæpast dregin að hvatinn nú sé öruggt lagaumhverfi og skýr framtíðarsýn hvað það varðar.“

Sjávarútvegurinn býr engu að síður við hagstætt rekstrarumhverfi að mati Ólafs.

„Hátt afurðaverð, hagstætt gengi og efnahagur greinarinnar er með nokkrum blóma sem opnar leið til hagstæðrar fjármögnunar. Og það ríkir bjartsýni á áframhaldandi sterkan markað fyrir sjávarafurðir.

Allt þetta og margt fleira telur en aðal ástæðan fyrir fjárfestingarhrinunni nú, sem vel að merkja er að langmestu leyti í skipum, er að lengra varð ekki komist með gömlu skipin. Það var bara ekki hægt að fresta endurnýjun einu sinni enn. Gömlu skipin, sem verið er að endurnýja, eru flest hver hátt á fimmtugs aldri og að niðurlotum komin. Þrátt fyrir fullkomið óöryggi í starfsumhverfi af hálfu stjórnvalda þá var bara einfaldlega ekkert val.“

Nánar verður fjallað um erindi Ólafs hér á vef SA en í síðari hlutanum fjallaði hann um þróttmikla nýsköpun og vöruþróun í sjávarútvegi, m.a. hjá Primex, dótturfyrirtæki Ramma.

Sjávarútvegsdagurinn er samstarfsverkefni SA, Deloitte, LÍÚ og SF. Fleiri fréttir frá deginum má nálagast hér að neðan.

Unnið að nýju frumvarpi um fiskveiðistjórnun

Íslenskur sjávarútvegur skilar miklu til þjóðfélagsins

Framleiðni í sjávarútvegi hátt í tvöfaldast frá árinu 1997

Íslensk þorsklifur í stað foie gras?

undefined