Fleiri þurfa að leggja atvinnulífinu lið í loftslagsmálum
Ríkisstjórn Íslands hefur nú samþykkt nýja stefnumörkun í loftslagsmálum og umhverfisráðherra kynnt hana. Gert er ráð fyrir því að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi með almennum aðgerðum um 50-75% fram til ársins 2050, miðað við stöðu mála árið 1990, auk þess að binda kolefni í gróðri. Hér er um að ræða markmið sem ganga lengra en þau sem ríkisstjórnir annarra ríkja hafa sett sér auk þess sem ekki er unnt að ráða af stefnumörkuninni hvar ætlunin er að ná stærstum hluta af þessum samdrætti. Enginn vafi er á að þessi stefnumörkun getur haft mikil áhrif á efnahag landsins. Ljóst virðist af lestri stefnumörkunarinnar að kröfur ríkisstjórnarinnar munu fyrst og fremst beinast að atvinnulífi í landinu en lítt hugað að hvað aðrir aðilar geta gert s.s. sveitarfélög, ríki og almenningur. Íslenskt atvinnulíf hefur staðið sig vel á undanförnum árum í að takmarka útstreymi gróðurhúsalofttegunda og mun áfram verða í fararbroddi.
Dregið úr losun með hagkvæmum aðgerðum
Umhverfisráðuneytið hefur gefið út spá um losun gróðurhúsalofttegunda fram til ársins 2012 og kemur þar fram að allar líkur bendi til að Ísland uppfylli skuldbindingar Kyoto-bókunarinnar við loftslagssáttmála Sameinuðu þjóðanna. Til þess að ná markmiði ríkisstjórnarinnar um 50-75% samdrátt útstreymis til ársins 2050 þarf því að draga úr því á hverju ári um 2-5% að jafnaði á öllu tímabilinu 2012 - 2050. Í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar er ekki fjallað um það hvernig skuli ná þessum markmiðum en mikilvægt er að tekið er fram að það skuli gert með hagkvæmum aðgerðum og að hafa eigi samráð við atvinnulífið um tillögur til aðgerða. Eins er mikilvægt að horft er til langs tíma þar sem atvinnufyrirtækin fjárfesta gjarnan í framleiðslutækni og búnaði sem ætlað er að endast í áratugi.
Markmið ESB
Evrópusambandið hefur sett sér að minnka útstreymi um 20% frá 1990 til ársins 2020 en samkvæmt Kyoto-bókuninni á að draga úr útstreymi í 15 ríkjum sambandsins um 8,5% til loka 2012 frá 1990. Þetta þýðir að árleg minnkun útstreymis í þessum 15 ríkjum verði um 1,8% ef 20% samdráttur verður látinn ná þessara sömu ríkja. Frá því 1990 hafa mörg ríki bæst við sem falla undir hatt ESB og með því að nýta útstreymi þeirra ríkja verður markmið ESB enn veigaminna en ella vegna þess mikla efnahagssamdráttar sem nýju aðildarríkin gengu í gegnum eftir 1990.
Auknar kröfur á Íslandi
Svo virðist sem ríkisstjórn Íslands sé að setja stífari markmið en önnur ríki, áður en ljóst verður til hvaða niðurstöðu alþjóðlegar viðræður leiða um hvað taki við eftir að gildistíma Kyoto-bókunarinnar lýkur. Kapphlaup einstakra ríkja um að setja sem háleitust markmið um samdrátt í útstreymi er einungis til þess fallið að draga úr líkum á því að víðtækt alþjóðlegt samkomulag náist um lausn á þeim vanda sem útstreymi gróðurhúsalofttegunda vegna brennslu kola, olíu og jarðgass veldur. Við slíkum einhliða yfirlýsingum hefur atvinnulíf í Evrópu varað og full ástæða er til að taka undir þau varnaðarorð.