Fjárlaganefnd bregst við versnandi efnahagsforsendum

Eftir mikil uppgangsár bendir nú margt til þess að það hægi á vexti íslenska hagkerfisins. Alþingi brást í síðustu viku við nýrri þjóðhagsspá Hagstofunnar og samþykkti breytingar á fjárlagafrumvarpi fyrir komandi ár.

Þegar frumvarpið var lagt fram í haust gagnrýndu Samtök atvinnulífsins í umsögn sinni hversu litlum rekstrarafgangi gert væri ráð fyrir. Lítið mætti út af bregða. Kom það á daginn þegar ný þjóðhagsspá með breyttum efnahagsforsendum birtist í byrjun þessa mánaðar. Nýleg lög um opinber fjármál skuldbinda stjórnvöld til að leggja fram fjármálaáætlun og fylgja henni eftir. Stuðlar það að langtímahugsun í ríkisfjármálum með því að þvinga fjárveitingavaldið til að halda sig innan fyrirfram skilgreinds ramma. Lituðust breytingarnar Alþingis af því.

Rétt viðbrögð
Í síðustu viku lauk annarri umræðu á Alþingi um fjárlög 2019. Í umsögn Samtaka atvinnulífsins um frumvarpið var harðlega gagnrýnd sú stefna stjórnvalda að auka áfram útgjöld og skapa ekki rými til skattalækkana. Gert væri ráð fyrir að afkoma ríkisins yrði 1% af vergri landsframleiðslu, sem er lítill afgangur ef horft er til þess að skattahækkanir fyrri ára standa að mestu óhreyfðar auk þess sem fjölmargir nýir skattar hafa bæst við undanfarinn áratug. Í umsögninni var ennfremur varað við því að svo takmarkaður afgangur væri fljótur að hverfa ef hagvaxtarforsendur breyttust eins og nú er að koma á daginn.

Samfara aukinni óvissu í efnahagsmálum hefur Hagstofa Íslands endurskoðað þjóðhagsspá sína. Forsendur fjárlaga hafa því breyst til samræmis við uppfærða spá. Hægari hagvöxtur og áhrif breyttra efnahagsaðstæðna á ríkisfjármálin eru fljót að koma fram. Það kemur á daginn að ríkissjóður þarf á næsta ári að standa straum af auknum útgjöldum m.a. vegna aukinnar verðbólgu, aukinna bótagreiðslna og lægra gengis íslensku krónunnar. Þar sem útgjaldaramminn var teygður til hins ýtrasta við framlagningu frumvarpsins verða stjórnvöld nú að draga saman seglin á öðrum sviðum til að unnt sé að standa við afkomuviðmið samþykktrar fjármálastefnu stjórnvalda.

Meirihluti fjárlaganefndar brást við breyttum aðstæðum með nefndaráliti sínu og breytingartillögum sem samþykktar voru í kjölfarið. Voru fjárheimildir auknar um 3,8 milljarða vegna endurmats á launa-, gengis- og verðlagsforsendum, og  2,7 milljarða vegna endurmats vaxtagjalda. Við þessu var brugðist með samdrætti í öðrum útgjöldum, en alls var lagt til að heildarútgjöld ríkissjóðs vaxi um 400 milljónir frá upprunalegu frumvarpi. Nefndarmönnum var ekki skemmt að vera sniðin svo þröngur stakkur í frumvarpinu:

„Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að framvegis komi fram svigrúm milli fjárlagafrumvarps og fjármálaáætlunar, þannig að afkoma fjárlagafrumvarps ráði við sveiflur og endurskoðun efnahagshorfa án þess að afkomumarkmið fjármálastefnu sé í hættu.“ 

Ný lög um opinber fjármál sönnuðu gildi sitt við þessar breytingar. Lögunum, sem tóku gildi árið 2016, var ætlað að tryggja heildstæða stefnumörkun í opinberum fjármálum til lengri tíma, tryggja langtímahugsun, stöðugleika og aga við framkvæmd fjárlaga.

Stjórnvöld leggja nú fram langtímaáætlun í ríkisfjármálum þar sem bönd eru sett á skuldsetningu ríkissjóðs og þess t.a.m. krafist að heildarjöfnuður sé jákvæður yfir hvert fimm ára tímabil. Það voru mistök að leggja ekki upp með meiri afgang en raun bar vitni til að geta brugðist við breyttu árferði. Nú þarf að að grípa til niðurskurðar í öðrum útgjöldum til að tryggja sama afgang á ríkisrekstri og lagt var upp með í frumvarpinu.

Heyrir umframkeyrsla sögunni til?
Það er umhugsunarefni hver viðbrögðin hafa verið þegar frumvarpið var lagt fram og nú þegar lögð er fram breytingartillaga vegna versnandi efnahagsaðstæðna. Þó verið sé að auka ríkisútgjöld um 57 milljarða milli ára mætti, af umræðunni að dæma, ætla að verið sé að skera verulega niður í ríkisrekstrinum. Svo er ekki. Ávallt verða háværar raddir sem krefjast mikillar útgjaldaaukningar, jafnvel við aðstæður sem þessar þegar útgjöld ríkissjóðs hafa aldrei verið meiri.

Fyrir stjórnmálamenn er of freistandi að láta skammtímasjónarmið ráða og láta undan slíkum þrýstingi. Tilkoma fjármálareglnanna og framlagning fjármálastefnu var því heillaskref sem festir í sessi langtímahugsun og kemur í veg fyrir umframkeyrslu ríkisútgjalda nema slíkt haldist í hendur við auknar tekjur. Í gegnum tíðina hefur umframkeyrsla ríkisútgjalda frá fjárlagafrumvarpi til ríkisreiknings verið regla fremur fremur en undantekning. Árin 2001-2016 höfðu ríkisútgjöld tilhneigingu til að aukast 8% umfram það sem upphaflega var lagt upp með í fjárlagafrumvarpi. Þó virðist sem samfara nýjum lögum um opinber fjármál hafi böndum verið komið á slíka umframkeyrslu því á árinu 2018 og nú í 2. umræðu um fjárlagafrumvarpið 2019 eru útgjöld á áætlun.

Stjórnmálamenn eru nú bundnir af ramma fjármálaáætlunar og ef forsendur breytast þarf að forgangsraða og hagræða í rekstri. Það hefði auðveldað verkið að leggja fram fjárlagafrumvarp með meiri afgangi og þ.a.l. meira svigrúmi til að bregðast við breyttum aðstæðum en úr því sem komið er ánægjulegt að sjá ábyrgar ráðstafanir þrátt fyrir mikinn þrýsting á að farin verði önnur leið.