Fjárhæðir launa kjörinna fulltrúa og dómara verði lögfestar

Starfshópur sem ríkisstjórnin skipaði um málefni kjararáðs hefur skilað tillögum um gerbreytt fyrirkomulag við ákvörðun launa kjörinna fulltrúa, þ.e. forseta Íslands, ráðherra, Alþingismanna, og  annarra starfsgreina sem nú heyra undir kjararáð.

Megin tillaga starfshópsins eru að laun kjörinna fulltrúa og dómara verði fastsett í lögum og breytist árlega til samræmis við breytingu meðallauna ríkisstarfsmanna næstliðið ár.

Aðrar starfsgreinar, sem nú heyra undir kjararáð, semji sjálfar um kjör sín eða að laun þeirra verði ákveðin í samræmi við fyrirkomulag sem skilgreint er í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Framangreindar tillögur fela í sér að hætt verði að úrskurða um laun í kjararáði eða hjá sambærilegum úrskurðaraðila.

Að mati starfshópsins eru helstu kostir nýs fyrirkomulags að launabreytingar æðstu embættismanna ríkisins geta ekki orðið leiðandi. Komið er í veg fyrir ósamræmi í launaþróun þeirra og annarra og launabreytingar verða jafnar en ekki í stökkum eins og dæmi eru um. Laun þeirra verða jafnframt gagnsærri og fyrirsjáanlegri, komið er í veg fyrir óskýrar launaákvarðanir og samræmi milli þeirra tryggt og mælikvarðar og tímasetningar við endurskoðun launa verða skýrar.

Starfshópurinn var skipaður 23. janúar 2018 og skilaði 52 blaðsíðna skýrslu sinni 14. febrúar og starfaði þannig í þrjár vikur. Starfshópurinn var skipaður þremur skrifstofustjórum ráðuneyta og þremur fulltrúum aðila vinnumarkaðarins, auk formannsins Jóhanni Karli Sveinssyni, lögmanni.

Benedikt Árnason, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneyti og Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, skrifstofustjóri í velferðarráðuneytinu, sátu í hópnum fyrir hönd ríkisins. Aðilar vinnumarkaðarins tilnefndu Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, Helgu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra BSRB, fyrir hönd BSRB, BHM og KÍ, og Magnús M. Norðdahl, lögfræðing ASÍ. Með nefndinni starfaði einnig Oddur Þorri Viðarsson, lögfræðingur í forsætisráðuneytinu.

Sjá nánar:

Skýrsla starfshóps um kjararáð (PDF)