Fjarar undan samkeppnishæfni Íslands
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við Viðskiptablaðið að styrking raungengis krónunnar sé orðin slík að eitthvað muni undan láta – samkeppnishæfni þjóðarinnar fari þverrandi.
„Áhrifanna er farið að gæta í ferðaþjónustu og iðnaði, ekki síst í hugbúnaðargeiranum sem er í auknum mæli farinn að taka vöxt sinn út í öðrum löndum. Þetta er því verulegt áhyggjuefni en vandinn snýr ekki bara að viðskiptavininum sem kaupir íslenskar vörur heldur líka að kostnaðinum sem verður til innanlands. Umræðan snýst alltaf mest um verð íslenskra vara á erlendum mörkuðum en það gleymist að launakostnaður innanlands hefur mest áhrif og hann er mun hærri en í flestum nálægum löndum.“
Við teljum að lækkun vaxta sé eðlilegasta leiðin til að létta á krónunni.
Að sögn Halldórs er það helst hátt raunvaxtastig Seðlabankans sem stuðlar að sterku gengi krónunnar. „Það hefur lengi verið okkar skoðun að það sé engin ástæða til að viðhalda þessu raunvaxtastigi í landinu og teljum við að lækkun vaxta sé eðlilegasta leiðin til að létta á krónunni. Það er tvíþætt ástæða þar að baki en lækkun vaxta bæði dregur úr fjármagnsinnflæði til landsins og eykur útflæði. Ég hef ekki enn séð neinn hrekja þessi rök.“
Leita ódýrari lausna
Í umfjöllun Viðskiptablaðsins kemur fram að sífellt fleiri íslensk fyrirtæki, sem eiga þess kost, hafi tekið þá ákvörðun að hætta að ráða í störf hér á landi vegna þess mikla kostnaðar sem fylgir sterku gengi krónunnar. Þá hafi ýmis tæknifyrirtæki ákveðið að færa starfsemi sína í auknum mæli til útlanda.
Framkvæmdastjóri SA segir að það sé eins og hljóð og mynd fari ekki saman á Íslandi hvað varðar tæknigeirann.
„Öðrum þræði tölum við mikið um að það verði að auka og efla tæknimenntun á Íslandi og það eru allir nokkuð sammála um að það sé ein af þeim stóru breytingum sem þurfi að eiga sér stað í menntakerfinu. En á móti kemur að sökum sterkrar krónu og mikils kostnaðar sjá fyrirtækin eðlilega hag sinn í því að leita ódýrari lausna þannig að tveir gagnstæðir kraftar toga hvor í sína átt. Ef litið er til framleiðni til lengri tíma og þróun samfélagsins þá hlýtur þetta að vera verulegt áhyggjuefni.“