Fiskur á þurru landi

Ísland er agnarsmá eyja í miðju Atlantshafi og útflutningsgreinar okkar standa undir verðmætasköpun þjóðarbúsins. Áframhaldandi velgengni og lífskjör okkar hvíla á því að vöxtur útflutningsgreina sé tryggður. Á árinu 2019 voru meðallaun á Íslandi eftir greiðslu skatta og bóta, leiðrétt fyrir verðlagi, þau fjórðu hæstu innan OECD. Við stöndum framarlega í alþjóðlegum samanburði. Síðustu ár hafa útflutningsgreinar verið drifkraftur hagvaxtar, vöxtur sem hefur verið drifinn áfram af auknum tekjum og viðvarandi viðskiptaafgangi.

Myndin er breytt. Faraldurinn sem nú geysar er efnahagsleg ógn sem leggst einna þyngst á ferðaþjónustuna. Atvinnugrein sem lagði til 8 prósent af landsframleiðslu og 15 prósent starfa á vinnumarkaði er nú brot af því sem áður var. Verðmætasköpun á árinu verður 240 milljörðum króna minni en lagt var upp með í upphafi árs. Þegar lífsgæði okkar eru í grunninn byggð á velgengni útflutningsgreina blasa við lakari lífskjör næstu árin. Nú sem aldrei skiptir öllu að við höfum byggt afkomu okkar á fleiri útflutningsstoðum.

Íslenskur sjávarútvegur hefur síðustu áratugi fjárfest í tækni, búnaði og mannauði sem hefur gert honum kleift að nýta betur afurðir sínar og auka verðmæti. Á árinu 2019 greiddu sjávarútvegsfyrirtæki um 20 milljarð króna í opinber gjöld. Tekjuskattur og veiðigjöld, sem greidd eru af fiskveiðum fyrir afnot af auðlindinni, námu 36 prósent af hagnaði síðasta árs og síðasta áratuginn hefur hlutfallið verið 35-65 prósent. Til samanburðar greiða flest fyrirtæki á Íslandi 20 prósent af hagnaði sínum til hins opinbera.

Við getum haft skiptar skoðanir á því hvert sé hið rétta gjald fyrir auðlindina en það skýtur verulega skökku við að í umræðunni séu ofangreindar tölur nær aldrei settar í samhengi. Staðreyndin er sú að það mun taka nokkur ár fyrir ferðaþjónustuna að ná fyrri styrk. Á meðan treystum við á íslenskan sjávarútveg. Nú er ekki rétti tíminn til róttækra breytinga.

Ásdís Kristjánsdóttir aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.