Fimmtíu milljarðar í boði á fimm árum
Utanríksráðuneytið, Útflutningsráð og Euro Info skrifstofan kynntu tækifæri til þátttöku í verkefnum styrktum af þróunarsjóði EFTA á Grand Hótel Reykjavík í gær. Sjóðnum er ætlað að styrkja efnahagslega og félagslega uppbyggingu í Eistlandi, Grikklandi, Kýpur, Lettlandi, Litháen, Möltu, Portúgal, Póllandi, Slóvakíu, Slóveníu, Spáni, Tékklandi, og Ungverjalandi.
Stjórnvöld í hverju ríki fyrir sig auglýsa eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum. Þeir sem sótt geta um eru lögaðilar í viðkomandi landi. Sjóðurinn skilgreinir tiltekin forgangssvið í fjármögnun sinni, s.s. umhverfisvernd, sjálfbær þróun, varðveislu evrópskra menningarverðmæta, þróun mannauðs og heilsugæslu. Íslensk fyrirtæki sem hyggjast nýta sér fjármögnun úr sjóðnum þurfa því að eiga samstarf við aðila í heimalandinu, sem leitar eftir fjármögnun úr sjóðnum. Íslensk stjórnvöld hafa boðist til að greiða götu þeirra aðila sem sækjast eftir þátttöku í verkefnum, með samskiptum við stjórnvöld í viðkomandi ríki.
Tæpum helmingi ráðstöfunarfjár eða um 300 milljónum evra, verður varið til verkefna í Póllandi á næstu fimm árum, um 10% fara til uppbyggingar í Ungverjalandi og um 8% í Tékklandi. Nú þegar hefur verið auglýst eftir umsóknum um styrki vegna verkefna í Tékklandi.
Upplýsingar um þróunarsjóð EFTA má finna á vefsetrinu www.eeagrants.org. Einnig má
senda fyrirspurnir á netfangið fmo@efta.int.