Fer lyklaborðið sömu leið og telexið og vídeótækin?

Formaður Samtaka atvinnulífsins, Björgólfur Jóhannsson, flutti opnunarerindi á Menntadegi atvinnulífsins sem fram fór á Hilton Reykjavík Nordica í morgun. Þar fjallaði hann um íslenska máltækni og atvinnulífið. Þetta er í fjórða sinn sem dagurinn er haldinn en hann hefur öðlast sess sem mikilvægur vettvangur þar sem á sér stað samtal atvinnulífsins, skólasamfélagsins og stjórnvalda um menntun og fræðslu.

 Erindið í heild má lesa hér að neðan:

„Tæknibreytingar framundan eru gríðarlegar en óvissan er mikil. Tengslin milli starfa og menntunar verða mikilvægari en nokkru sinni. Fólk verður að geta lagað sig að nýjungum í starfinu, vilja fræðast. Fólk og fyrirtækin vilja geta nálgast aðgengilegt, sveigjanlegt og gjarnan skemmra nám en nú er boðið upp á.

Fyrirtækin munu leggja aukna áherslu á að fólk læri nýja hluti í störfum sínum. Samskiptahæfileikar  skipta sífellt meira máli til að fólk nái árangri. Þar er ekki bara um að ræða samskipti við viðskiptavini heldur líka getan til að tjá sig, fjalla um starfið á vinnustaðnum og aðlagast síbreytilegum aðstæðum. Þess vegna vilja fyrirtæki ráða til sín fólk sem getur og vill bæta við þekkingu sína á starfssviði fyrirtækisins.

Íslendingar þurfa ekki að horfa lengra en til sjávarútvegsins og fiskvinnslunnar til að sjá gríðarlegar tæknibreytingar á undraskömmum tíma. Hagræðing, markaðssókn, nýsköpun og tækniþróun hefur leitt til þess að starfsfólk í greininni er nú mun færra en áður. Auk þess fjölgar sífellt fólki með meiri menntun en áður tíðkaðist og störf allra hafa breyst mikið. Fyrirtækin og fólkið sem hjá þeim starfa hafa þurft að bregðast við og gert það með miklum sóma. Fleiri dæmi úr öðrum atvinnugreinum mætti nefna.

Hér á eftir mun forseti Íslands afhenda tveimur verðugum fyrirtækjum menntaverðlaun atvinnulífsins þar sem samstarf skóla og atvinnulífs skilar miklum ávinningi.  Þau eru fyrirmyndir og góð dæmi um hvernig unnt er að vekja áhuga fólks á menntun sem nýtist í atvinnulífinu og gerir því kleift að öðlast meiri starfsánægju og aukinn frama.

Samtök atvinnulífsins hafa ákveðið að helga Menntadag atvinnulífsins 2017 íslenskri máltækni. Það er augljóst hverjum sem vita vill að framundan eru breytingar þar sem sífellt fleiri störfum verður sinnt af vélum, tækjum og tólum. Einnig að tækjunum verður stýrt meira eða minna með röddinni. Í notkun eru símar, bílar, ísskápar, þvottavélar og margvísleg önnur tæki sem geta brugðist við mæltu máli. Gallinn er sá að tungumál tækjanna er í flestum tilvikum enska. Þar er tölvumúsin og lyklaborðið smám saman á útleið og kannski fara þau sömu leið og telexið, faxtækin og vídeótækin

Okkur hér á landi er nauðsynlegt að búa yfir tækni og tólum sem skilja íslensku og geta breytt mæltu máli í skrifaðan texta. Við þurfum einnig að byggja upp öflugar vélar sem geta þýtt erlendan texta yfir á íslensku. Í því skyni verður að vera unnt að færa útgefnar þýðingar á erlendum bókum í gagnagrunn ásamt upphafstextanum. Þannig verða smám saman til öflugir gagnagrunnar sem einungis eru nýttir í þessum tilgangi en eiga alls ekki að ógna höfundarrétti.

Og að lokum þurfa að verða til öflug leiðréttingarforrit sem leiðrétta ekki einungis stafsetningu heldur einnig fallbeygingu og lagar skrifaðan texta að öðrum reglum íslensks máls. Við þetta verður ekki notast við erlend leiðréttingarforrit. Við þurfum íslenskar vélrænar málfarslöggur því það er ekkert þágufall á ensku.

Verði ekki að gert er hætta á að íslenskan muni eiga erfitt uppdráttar þegar fram í sækir og enskan verði ráðandi í samskiptum ungs fólks. Hætta er einnig á að smám saman tapist samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja sem geta ekki átt jafnauðveld og greið samskipti við innlenda viðskiptavini sína og samkeppnisaðilar í nálægum löndum.

Íslenskan er það sem gerir okkur að þjóð. Menningin byggir á arfi frá forfeðrum okkar og mæðrum og til að viðhalda henni verða nýjar kynslóðir að geta nálgast þennan arf án mikillar fyrirhafnar. Hver ný kynslóð verður að geta orðað flóknar hugsanir og fjallað um samhengi hlutanna á móðurmáli sínu. Fram að þessu hafa Íslendingar notið þess að fram hafa komið jafnt og þétt ungir rithöfundar sem hafa fært okkur nýja sýn á fortíð og samtíð. Þetta er ómetanlegt og það er óhugsandi að þessi hæfileiki geti tapast.      

Máltækni er svið sem er dæmigert fyrir svokallaðan markaðsbrest það er ekkert eitt fyrirtæki og engin ein stofnun er í stakk búin til að ráðast í þetta umfangsmikla verkefni. Það mun taka tíma að komast jafnfætis öðrum þjóðum og það mun kosta samfélagið töluvert fé.

Sem betur fer hefur Alþingi ályktað um mikilvægi þess að vernda íslenska tungu. Eðlilegt næsta skref er að efnt verði til fimm til sjö ára átaks til að efla máltækni, menntun á því sviði, rannsóknir og tækniþróun. Samtök atvinnulífsins hafa kallað eftir því að sett verði af stað sérstök markáætlun þar sem hvatt er til samstarfs fyrirtækja, stofnana og háskóla þannig að unnt verði að sækja um styrki til einstakra verkefna sem rúmast innan þessa sviðs gegn ákveðnu mótframlagi.

Enginn þarf að velkjast í vafa um að atvinnulífið og fyrirtækin í landinu eru meira en fús til þátttöku.“

Björgólfur Jóhannsson, formaður Samtaka atvinnulífsins á Menntadegi atvinnulífsins 2017, 2. febrúar á Hilton Reykjavík Nordica.

Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins. Hjá aðildarfyrirtækjum samtakanna starfar um 70% launafólks á almennum vinnumarkaði.

undefined