Félagslegur hreyfanleiki mikill á Íslandi
Nýr vefur forsætisráðuneytisins sýnir að félagslegur hreyfanleiki er mikill á Íslandi. Sem dæmi má nefna að 73% einstaklinga á aldrinum 25-29 ára sem voru í fyrstu þremur tekjutíundum árið 1991 voru komnir í hærri tíund árið 2017.
Á vefnum tekjusagan.is má skoða hver þróun ráðstöfunartekna hefur verið hjá mismunandi hópum samfélagsins með tilliti til skatta og bóta nærri þrjá áratugi aftur í tímann og hvernig landsmenn hafa færst milli tekjuhópa.
Ráðstöfunartekjur nær allra tekjuhópa eftir greiðslu skatta og bóta hafa aukist á föstu verðlagi frá árinu 2012
Vefurinn hefur að geyma áreiðanlegar heimildir um lífskjör landsmanna og þróun þeirra í gegnum árin. Gögnin sem eru opin öllum hafa ekki verið aðgengileg áður og eiga stjórnvöld hrós skilið fyrir framtakið sem er mikilvægt innlegg í umræðuna um kjaramál á Íslandi.
Tekjusagan spannar tímabilið 1991-2017. Sögunni er skipt í tvo kafla, annars vegar Launaumslagið og hins vegar Lífshlaupið. Hið fyrrnefnda lýsir þróun mánaðarlegra ráðstöfunartekna á föstu verðlagi, að teknu tilliti til skatta og bóta bæði ríkis og sveitarfélaga. Hið síðarnefnda lýsir svo hvernig einstaklingar hafa færst milli tekjutíunda yfir tíma, það er svokölluðum félagslegum hreyfanleika.
Þegar Lífshlaupið er skoðað kemur skilmerkilega í ljós að félagslegur hreyfanleiki hefur verið mikill á Íslandi - sú tekjutíund sem einstaklingur tilheyrði við upphaf starfsævi sinnar hafði lítið að segja um þá tíund sem sá hinn sami tilheyrði aldarfjórðungi seinna. Hreyfanleiki er þó vissulega mismikill og geta gögn sem þessi hjálpað stjórnvöldum og aðilum vinnumarkaðarins að greina þá hópa sem hafa setið eftir.
Þegar kíkt er í launaumslagið má sjá þróun ráðstöfunartekna mismunandi þjóðfélagshópa og bera saman við aðra. Einnig má má bæta fjármagnstekjum hópanna við samanburðinn. Ánægjulegt er að ráðstöfunartekjur nær allra tekjuhópa eftir greiðslu skatta og bóta hafa aukist á föstu verðlagi frá árinu 2012 - hvort sem horft er til þeirra sem búa í eigin húsnæði eða í leiguhúsnæði, lægstu tekjutíundar eða þeirra sem hafa hærri tekjur.
Á undanförnum árum hefur verið lögð áhersla á að hækka lægstu laun sérstaklega og kemur því ekki á óvart að ráðstöfunartekjur lægstu tekjutíunda hafi aukist hlustfallslega meira en annarra á sama tíma. Það er í samræmi við greiningu SA sem kynnt var nýverið á Skattadegi Deloitte í síðustu viku.