Færslukeðjur munu umbylta stjórnsýslu
Reglulega berast fréttir af færslukeðjutækni (e. blockchain) og hvernig hún muni gjörbylta viðskiptaumhverfinu. Sumir telja að hún muni jafnvel hafa hliðstæð áhrif og internetið á sínum tíma, en þó ekki jafn sýnilega. Fæstir virðast þó þekkja til tækninnar. Það mun þó líklega breytast fljótt enda eru færslukeðjur þegar farnar að ryðja sér til rúms.
Hvað er færslukeðja?
Ímyndaðu þér kerfi af skrám eða lista af skrám sem myndar dreifðan gagnagrunn sem rekin er á mörgum tækjum sem eru tengd saman og búa til blokkir. Blokkirnar hafa að geyma upplýsingar sem eru tryggðar með dulkóðun. Þetta er ekki miðstýrt kerfi (e. decentralised) þar sem allir hafa afrit af sínum gögnum og eru með þau læst.
Kosturinn við færslukeðju er traust og gegnsæi sem fylgir henni. Kerfið er ekki geymt á einni tölvu heldur dreift á margar sem allar eru tengdar saman. Þegar bæta á upplýsingum inn í kerfið þurfa allar þessar tölvur að samþykkja breytinguna sem gerir það verkum að erfitt er að breyta efni án þess að allir sjái það. Allt sem fer inn í keðjuna er rekjanlegt og allir geta fylgst með gögnum og uppruna þeirra. Gegnsæi kerfisins gerir það að verkjum að keðjan er örugg. Ekki er hægt að gera breytingar á því án vitundar annarra og því er traustið í raun algert.
Mikilvægur kostur keðjunnar er að hún fækkar milliliðum og gerir aðilum kleift að stunda viðskipti án aðkomu þriðja aðila. Til dæmis gætu ýmsar skrár hins opinbera, eins og þinglýsingar, þjóðskrá og fasteignaskrá, orðið óþarfar. Tæknin gæti dregið úr kostnaði á ýmsum sviðum. Þjónustugjöld og eftirlit sem tengjast þessari starfsemi gætu heyrt sögunni til. Tími sparast og boðleiðir styttast.
Færslukeðjur eru þekktastar fyrir að vera sú tækni sem rafmyntir eins og Bitcoin styðjast við. Bitcoin og aðrar rafmyntir væru ekki til án færslukeðju. Öll viðskipti eiga sér stað í færslukeðjunni sem heldur utan um allar færslur. Færslukeðjur má þó nýta í ýmislegt annað, til dæmis að eiga samskipti í hvaða formi sem er. Þá er hægt að nýta tæknina sem gagnagrunn og geyma þar t.d. tónlist, samninga og atkvæði. Möguleikarnir eru endalausir.
Bylting í stjórnsýslu
Ríkið geymir mikið magn upplýsinga. Allar breytingar og miðlun slíkra upplýsinga taka tíma. Færslukeðja gerir okkur kleift að sækja gögn, færa þau og sannreyna á augabragði. Ríkið gæti nýtt sér þessa nýju tækni til að veita borgurum þjónustu. Sem dæmi um þetta má nefna:
- Útgáfu skilríkja
Fæðingarvottorð, ökuskírteini, hjúskaparvottorð og dánarvottorð gætu heyrt sögunni til. Hægt væri að nýta tæknina og útbúa eitt skilríki sem innihéldi allar þessar upplýsingar rafrænt.
- Grunnskrár og upplýsingamál
Ríkið geymir ýmsar grunnskrár og þarf að tryggja öryggi þeirra. Hægt væri að nýta tæknina til að halda utan um fyrirtækjaskráningu, eignaskráningu, heilbrigðisþjónustu, prófskírteini og margt fleira.
- Millifærslur og greiðslur
Tæknin gerir aðilum kleift að eiga viðskipti í rauntíma. Þá dregur hún úr möguleikum á svikum og skattaundanskotum enda kerfið opið og rekjanlegt.
- Kosningar
Tæknin getur tryggt einfalda og örugga framkvæmd kosninga. Það myndi draga úr kostnaði, auðveldara væri að kjósa og kosningaþátttaka eykst.
- Eignaskráning
Með því að nýta færslukeðju er hægt að halda utan um upplýsingar um kaup og sölu eigna með gagnsæjum hætti. Kostnaður og áhætta myndi minnka.
- Almannatryggingar og réttindi
Tæknin getur nýst til að halda utan um stöðu trygginga, nýtingu heilbrigðisþjónustu og greiðslur ásamt kostnaði, t.d. með svokölluðum snjallsamningum.
Þá kæmi vel til greina að nýta tæknina til að halda utan um velferðarmál, snjallsamninga, skattlagningu, rafmyntir o.fl. Í raun eru fá takmörk til hvers megi nýta tæknina.
Framtíðin
Framtíðin mun leiða í ljós hvernig tæknin þróast og nýtist, bæði hjá einkaaðilum og hjá hinu opinbera. Ef marka má nýlega könnun Deloitte hefur nýting færslukeðja í ríkisrekstri þó hafist um allan heim og áhrifin eru handan við hornið.
Eistland er dæmi um land þar sem verið er að skoða nýtingu færslukeðja í ríkisrekstri og hvernig hægt er að nýta tæknina í kosningum og heilbrigðisþjónustu. Önnur lönd hafa fylgt og eru stjórnvöld víða byrjuð að kanna hvernig hægt er að nýta tæknina á ýmsa vegu.
Þá er einnig farið að gæta áhrifa hér á landi þar sem tæknin er þegar farin að hasla sér völl. Sem dæmi má nefna nýlegar fréttir af því að nýta eigi tæknina í viðskiptum með íslensk matvæli. Í viðskiptum með vörur þar sem rekjanleiki skiptir máli kemur tæknin sér augljóslega vel. Annað nýlegt dæmi er að fjölmiðlar nýta tæknina til að að selja og dreifa efni.
Stjórnvöld ættu að taka þessari tækni opnum örmum og kanna möguleikana sem felast í henni. Það ætti að vera auðvelt fyrir fámennt og tæknivætt land eins og Ísland að prófa sig áfram. Það er því ekkert til fyrirstöðu að hefjast handa.