Eyjólfur Árni endurkjörinn formaður Samtaka atvinnulífsins í dag

Eyjólfur Árni Rafnsson, var í dag endurkjörinn formaður Samtaka atvinnulífsins. Tilkynnt var um kjörið á aðalfundi SA fyrr í dag og hlaut Eyjólfur Árni 99,50% greiddra atkvæða. Þátttaka í kosningunni var góð. Eyjólfur Árni ávarpaði fundinn og fjallaði m.a. um efnahagsaðstæður og horfur sem hafa breyst eftir kórónakreppuna. Aðstæðurnar geri mörgum fyrirtækjum erfitt að standa undir þeim launahækkunum sem fólust í Lífskjarasamningnum. 

„Það urðu okkur mikil vonbrigði að ekki reyndist síðastliðið haust unnt að fá verkalýðsfélögin í landinu til að fallast á lágmarksbreytingar til að koma til móts við breyttar aðstæður í atvinnulífinu. Vilji til samtals, gagnkvæms skilnings og geta til að leita lausna sem gagnast gætu bæði fólki og fyrirtækjum var því miður ekki til staðar hjá forystufólki verkalýðshreyfingarinnar. Engin leið er til skynsamlegra kjarasamninga ef vilji til sameiginlegs mats á efnahagsaðstæðum er ekki til staðar," sagði Eyjólfur Árni.

Ekki svigrúm til launahækkana

Eyjólfur Árni sagði enn fremur að gert væri ráð fyrir að landsframleiðslan verði orðin svipuð á árinu 2022 og hún var 2019 og að umsvif í hagkerfinu verði nær 700 milljörðum krónum minni á árunum 2020 til 2022 en gert var ráð fyrir við gerð kjarasamninga.

Með þá staðreynd í farteskinu blasir við að ekki verður mikið svigrúm til að semja um launahækkanir á næsta ári. Til viðbótar þessu er það áhygguefni að ríki og sveitarfélög leiði launaþróun og breytingar á vinnumarkaði.  Launahækkanir hljóta að byggja á framleiðni og verðmætasköpun í atvinnulífinu og ef ekki næst samstaða um þá staðreynd er ekki von að vel fari. Þá verður erfitt að vinna bug á atvinnuleysi sem bæði er samfélagsmein og böl fyrir þau sem ekki hafa vinnu og fjölskyldur þeirra. Samstaða fyrirtækjanna og virk þátttaka ykkar félagsmannanna í starfi samtaka okkar er nauðsynleg til að unnt sé að finna skynsamlegar leiðir þegar kemur að endurnýjun kjarasamninga á næsta ári," sagði hann.

Fjölgun opinberra starfa er ekki svarið

Eyjólfur Árni segir að verðmætasköpun þurfi að efla. „Hún verður til í atvinnulífinu með frumkvæði einstaklinga og fyrirtækja sem sækja fram á mörkuðum og leitast við að styrkja sína stöðu í harðri alþjóðlegri samkeppni. Það gerist ekki, með fullri virðingu fyrir því góða starfi sem unnið er á opinberum vettvangi, með því að fjölga opinberum störfum."

Hann segir þó fulla ástæðu til að líta framtíðina björtum augum. „Til staðar er styrkur grunnur í fyrirtækjunum, öflugt fólk og mikil þekking. Nýsköpun blómstrar sem aldrei fyrr og sókn á markaði innan lands og utan mun taka kipp þegar hömlunum léttir sem við Íslendingar eins og aðrir höfum búið við nú vel á annað ár."

Ný stjórn Samtaka atvinnulífsins kosin

Á aðalfundinum var ný stjórn Samtaka atvinnulífsins fyrir næsta starfsár einnig kosin:

Fulltrúi Samorku er:

Gestur Pétursson, Veitur ohf.

Fulltrúar Samtaka ferðaþjónustunnar eru:

Bjarnheiður Hallsdóttir, Katla DMI ehf.

Bogi Nils Bogason, Icelandair ehf.

Helga Árnadóttir, Bláa lónið hf.

Fulltrúar Samtaka verslunar og þjónustu eru:

Eggert Þór Kristófersson, Festi hf.

Guðrún Jóhannesdóttir, Kokka ehf.

Jón Ólafur Halldórsson, Olíuverzlun Íslands hf.

Tinna Jóhannsdóttir, Reginn hf.

Fulltrúar Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi eru:

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi

Ólafur Marteinsson, Rammi hf.

Ægir Páll Friðbertsson, Brim hf.

Fulltrúar Samtaka fjármálafyrirtækja eru:

Helgi Bjarnason, Vátryggingafélag Íslands hf.

Lilja Björk Einarsdóttir, Landsbankinn hf.

Fulltrúar Samtaka iðnaðarins eru:

Arna Arnardóttir, Samtök iðnaðarins

Árni Sigurjónsson, Marel hf.

Hjörleifur Stefánsson, Nesraf ehf.

Magnús Hilmar Helgason, Launafl ehf.

Rannveig Rist, Rio Tinto á Íslandi hf.

Sigurður R. Ragnarsson, Íslenskir aðalverktakar hf.

Valgerður Hrund Skúladóttir, Sensa ehf.                

Framkvæmdastjórn samtakanna verður svo kjörin á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund, líkt og segir í samþykktum SA. Framkvæmdastjórn SA skipa formaður og varaformaður samtakanna og sex menn sem stjórnin kýs úr hópi stjórnarmanna.