Evrópsk samkeppnisyfirvöld bæta sig

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) hefur lagt fram tillögur um breytta skipan eftirlits með samruna fyrirtækja innan sambandsins. Í yfirstandandi endurskoðun er lögð áhersla á að einfalda vinnubrögð jafnframt því að tryggja gegnsæi og skilvirkari meðferð mála sem vísað er til ESB. Ráðinn verður yfirhagfræðingur með reynslu úr atvinnulífinu til að bæta vinnubrögðin. Núverandi reglugerð gekk í gildi síðla árs 1990.

Árið 2000 var ákveðið að nota tíu ára afmæli sem tilefni til að endurskoða reglurnar, aðlaga þær reynslunni, niðurstöðum dómstóla og sníða af bersýnilega vankanta. Ljóst er að frávísun undirréttar ESB á þremur úrskurðum framkvæmdastjórnarinnar um samruna á síðasta ári hefur haft veruleg áhrif, en vinnubrögð framkvæmdastjórnarinnar sem og viðmið hennar varðandi markaðshlutdeild við samruna hafa einnig sætt harðri gagnrýni markaðsaðila, sem t.d. má sjá í athugasemdum sem bárust um grænbók framkvæmdastjórnarinnar.

Frávísanir dómstólsins
Evrópudómstóllinn (undirrétturinn) hefur nýlega veitt framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, vegna samkeppnisstofnunar ESB, harðar ákúrur vegna nokkurra ákvarðana stofnunarinnar um bann við samruna fyrirtækja. Dómstóllinn átelur harðlega bæði mælistikur og starfshætti samkeppnisstofnunarinnar. Málunum var vísað frá m.a. vegna formgalla og skorts á viðunandi sönnunargögnum og rökum fyrir banni við samruna. Niðurstöðurnar þykja benda til þess að dómstóllinn geri mun harðari kröfur til sönnunarbyrði ESB í samrunamálum en áður. Á þeim tólf árum sem samkeppnisreglurnar hafa verið í gildi hefur framkvæmdastjórnin hafnað samruna í 18 tilfellum, sem er 1% af tilkynningum sem borist hafa á þessum tíma.

Samkeppnisstofnun ESB er í raun sérstakur verkefnishópur sem starfar á vegum framkvæmdastjórnar ESB undir forystu Mario Monti framkvæmdastjóra. Um þetta var fjallað á vef SA í október sl.

Sveigjanlegri og opnari aðferðir
Í tillögum framkvæmdastjórnarinnar er annars vegar tekið á vinnubrögðum og hins vegar samskiptum við þá sem málin varða. Breytingarnar snúa bæði að reglugerð um samruna og ákvörðunum um vinnuaðferðir innanhúss vegna samskipta við fyrirtæki sem fjallað er um. Viðmiðin verða óbreytt en mat og útlegging verður sveigjanlegri. Lögð verður áhersla á að setja samruna ekki upp sem einfalt reikningsdæmi heldur taka tillit til fleiri þátta s.s. hagkvæmni sem skilaði sér í bættum kjörum til neytenda. Lögð er áhersla á að rökstuðningur ákvarðana verði styrktur, fjárhagsúttekt á fyrirtækjum verði bætt og viðhorf þeirra sjálfra tekin með í reikninginn í ríkari mæli. Tímarammar verða einnig gerðir sveigjanlegri og loks hefur Mario Monti bent á að verið sé að herða sönnunarbyrði evrópskra samkeppnisyfirvalda, sbr. fyrrnefndar frávísanir dómsins.

Sérstakur yfirhagfræðingur
Framkvæmdastjórnin hefur auglýst eftir yfirhagfræðingi með tengsl við atvinnulífið og sérþekkingu og reynslu í samkeppnismálum til að hafa yfirsýn yfir mat og úrvinnslu er varðar samruna og samkeppnismál almennt. Skal hann ráðinn til þriggja ára og eingöngu vera ábyrgur gagnvart framkvæmdastjóra stjórnardeildarinnar sem fer með samkeppnismál, auk þess að vera framkvæmdastjórninni í heild til halds og trausts. Gert er ráð fyrir að tíu manns vinni undir stjórn yfirhagfræðingsins, þar af fimm ráðnir utan frá. Hlutverk þessa nýja yfirmanns verður að fylgjast með undirbúningi og meðferð mála hjá samkeppnisdeild ESB og gera athugasemdir þegar tilefni gefst til. Hann verður þannig umsagnaraðili um meðferð og niðurstöður allra mála sem falla undir samkeppnisdeildina. Með því að samræma ábyrgð og yfirsýn á einum stað hyggst framkvæmdastjórnin tryggja skilvirkni og innra eftirlit. Auk þess verða settir á fót sérfræðingahópar sem munu leggja mat á niðurstöður þeirra sem standa að einstökum úttektum.

Bætt upplýsingastreymi til fyrirtækja
Tillögurnar gera ráð fyrir að fyrirtækjum verði gefinn kostur á að skoða gögn sem lögð eru fram, hvort heldur af framkvæmdastjórninni eða þriðja aðila. Fyrirhugað er að halda reglulega stöðufundi með fyrirtækjum sem eru til meðferðar til upplýsingar og samráðs. Sérstakt starf neytendafulltrúa hefur verið stofnað til að tryggja að viðhorf þeirra eigi greiðan aðgang að málatilbúnaði í hverju tilfelli. 

Evrópsk samkeppnisyfirvöld að bæta sig
Það fer ekki á milli mála að framkvæmdastjórn ESB telur sig hafa lært bæði af reynslunni á markaði og fyrir dómstólum lexíu sem nauðsynlegt sé að taka tillit til.  Þessi endurskoðun er því tímabær og lofsvert af framkvæmdastjórninni að bregðast með þessum jákvæða hætti við réttmætri gagnrýni markaðsaðila og dómstóla.


Sjá nánar í samantekt framkvæmdastjórnar ESB.