ESB samþykkir ósk Íslands um loftslagssamvinnu

Íslensk stjórnvöld fóru formlega fram á það við Evrópusambandið í byrjun júní að vera með sameiginlegan loftslagskvóta með ESB gagnvart loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna. Jafnframt tilkynnti Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra að íslensk stjórnvöld væru reiðubúin að taka að fullu upp loftslags- og orkulöggjöf sambandsins. Ráðherraráð ESB samþykkti þessa málaleitan í dag og ákvað að hefja samningaviðræður um nákvæma útfærslu samkomulagsins. Ísland mun því fylgja ákvörðunum ESB um samdrátt í útstreymi gróðurhúsalofttegunda, leggja fé til þróunarríkja eins og aðildarríki ESB og taka upp markmið um að auka nýtingu endurnýjanlegrar orku.

Þetta kemur fram í pistli Péturs Reimarssonar sem staddur er í Kaupmannahöfn. Í pistlinum segir ennfremur:

Ísland og ESB munu því hafa sameiginlegt markmið um samdrátt útstreymis gagnvart loftslagssamkomulagi því sem unnið er að í Kaupmannahöfn. Ísland mun innleiða í heild loftslags- og orkulöggjöf ESB sem samþykkt var í lok síðasta árs. Ísland mun væntanlega kynna þessar niðurstöður hér í Kaupmannahöfn.

Þar sem útstreymisheimildir orkufreks iðnaðar á Íslandi fást í framtíðinni úr sameiginlegum útstreymisheimildum Íslands og ESB verður íslenska ákvæðið svokallaða  væntanlega óþarft þó vart sé unnt að gefa það eftir að fullu fyrr en búið er ganga formlega frá samningi við ESB. Þótt erindið hafi verið sent til ESB í byrjun júní hefur verið unnið að málinu í tíð núverandi ríkisstjórnar og þeirra tveggja sem á undan fóru.

Hvað felst í orku- og loftslagslöggjöf ESB?
Hluti þessarar löggjafar liggur utan við EES-samninginn og Ísland mun verða með markmið um samdrátt útstreymis til 2020 sem reiknað verður út á sama hátt og fyrir ESB-ríkin. Ákveði ESB að hækka samdráttarmarkmið sitt úr 20% í 30% miðað við 1990, í kjölfar þess að gerður verður nýr alþjóðlegur loftslagssamningur, mun Ísland fylgja því. Eins mun Ísland þurfa að taka á sig sérstakt markmið um að auka nýtingu endurnýjanlegrar orku hér á landi.

Annar hluti löggjafarinnar er þegar hluti af EES-samningnum. Það á t.d. um viðskiptakerfi með útstreymisheimildir (ETS). Flugsamgöngur munu falla undir kerfið 2012 og orkufrekur iðnaðar á Íslandi frá 2013. 

Ísland verður aðili að sameiginlegri ákvörðun Evrópuþingsins og Evrópuráðsins frá 23. apríl 2009 (406/2009/EC) um skiptingu markmiðs ESB um samdrátt í útstreymi gróðurhúsalofttegunda til 2020. Samkvæmt því verður sett markmið um samdrátt útstreymis á Íslandi fram til 2020. Líklegt er að það markmið verði til þess að draga þurfi úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda á landinu um 20% frá 1990 til 2020. Þetta markmið ESB um samdrátt útstreymis verður hækkað náist almennt og víðtækt samkomulag um alþjóðlegan sáttmála og getur þá orðið allt að 30%.

Ákvörðunin nær til útstreymis vegna eldsneytisnotkunar, útstreymis frá almennum iðnaði, úrgangi og landbúnaði. Á Íslandi er útstreymið einkum frá samgöngum og fiskiskipaflotanum. Mjög er takmarkað hvað nýta má af heimildum sem fengnar eru með svokölluðum sveigjanleikaákvæðum Kyoto-bókunarinnar (verkefnum í þróunarríkjum). Eins er ekki gert ráð fyrir að ákvörðunin nái til verkefna sem tengjast landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis en ætlunin er að setja reglur um þessi atriði á árinu 2011.

Í ákvörðuninni er gert ráð fyrir að öll aðildarríki leggi fé til þróunarríkja og þurfa íslensk stjórnvöld að leggja fram fjármagn til verkefna til að draga úr útstreymi, bregðast við loftslagsbreytingum og stuðla að tækniþróun í þróunarríkjunum en ESB ákvað nýlega að leggja 6 milljarða evra til þessara mála næstu þrjú árin.

Rétt er að ítreka að útstreymi frá þeim greinum sem falla undir viðskiptakerfi ESB með útstreymisheimildir falla utan við þessa ákvörðun og þar með flugsamgöngur, ál- og járnblendiframleiðslu. Útstreymisheildir þessara greina munu koma úr sameiginlegum potti ESB og Íslands.

Tilskipun ESB um endurnýjanlega orku (2009/28/EC) verður tekin upp að fullu. Þar er meðal annars gert ráð fyrir að Ísland mun þurfa auka nýtingu endurnýjanlegrar orku til ársins 2020 en ekki liggur fyrir hversu mikið. Nefna má að Svíþjóð þarf að auka hlut endurnýjanlegrar orku úr tæpum 40% í tæp 50%.

Pétur Reimarsson

Sjá nánar:

Ákvörðun ráðherraráðs ESB 15. desember (PDF)