ESB hyggst minnka umfang löggjafar um 25%

Markmiðið um einfaldað og bætt laga- og reglugerðarumhverfi hefur verið eitt af "helstu forgangsmálum" ESB frá fundi ráðherraráðsins í Edinborg í desember 1992. Lítill árangur hefur hins vegar náðst, enda verkefnið flókið og lítill raunverulegur pólitískur stuðningur að sögn framkvæmdastjórnarinnar. Laga- og reglugerðasafn ESB telur nú um 80.000 þúsund blaðsíður og er það yfirlýstur vilji framkvæmdastjórnarinnar að skera umfangið niður um a.m.k. 25% fyrir janúar árið 2005, en þá tekur ný framkvæmdastjórn til starfa. Á vef sænsku samtaka atvinnulífsins er þó lögð áhersla á mikilvægi þess að skriffinskubyrði fyrirtækjanna minnki, ekki umfang lagatextanna sjálfra.

Fram kemur í tilkynningu framkvæmdastjórnarinnar að þessi markmið náist ekki nema með dyggum stuðningi annarra stofnana ESB, ekki síst ráðherraráðsins. Nákvæm aðgerðaáætlun hefur því ekki verið lögð fram, en framkvæmdastjórnin hefur þegar tekið táknræna ákvörðun um að draga til baka um eitt hundrað tillögur til nýrra reglusetninga.

Sjá nánar á vef framkvæmdastjórnar ESB.