Ert þú búin(n) að taka samtalið?

Þær eru margar ræðurnar sem haldnar hafa verið um mikilvægi iðn- og verknáms fyrir einstaklinga, fyrirtæki og samfélag. Er umhugsunarefni hvað veldur að orðin breytast ekki í athafnir. Of fáir sækjast eftir starfsmenntun og enn færri ljúka námi en brotthvarf nemenda er mikið innan iðn- og verkgreina. Þar kemur margt til, meðal annars að ekki er búið að tryggja nemendum starfsnám á vinnustað.

Það er eitt af viðfangsefnum atvinnulífsins í samvinnu við skóla og stjórnvöld að námsferill nemandans til enda sé tryggður strax við innritun í skóla. Einnig er mikilvægt að námsleiðir sem hægt er að velja á sviði iðn- og verknáms endi ekki í blindgötu heldur opni leiðir inn í stúdentspróf eða nám á öðrum skólastigum. Breytt skipulag iðn- og verknáms og efling þess er eitt veigamesta úrlausnarefnið sem blasir við í vinnu sem hafin er vegna ágætrar Hvítbókar menntamálaráðherra. Meðal þess sem þarf að fara yfir er skipting í bóknámshluta og verknámshluta og hvernig báðir þessir þættir taki mið af tækni og þörfum 21. aldar en ekki því sem tíðkaðist um miðja síðustu öld.

Atvinnulífið vill taka þátt

Í þeirri vinnu mun atvinnulífið taka fullan þátt en jafnframt er líklegt atvinnulífið þurfi að skuldbinda sig í meira mæli í þágu menntunar svo raunhæft verði að styrkja námið og fjölga iðnnemum. Gildir þetta bæði um atvinnurekendur og launþegahreyfinguna. Atvinnulífið vill gjarnan koma að auknu samstarfi á þessu sviði, jafnvel skoða breytta fjármögnun námsins. Fyrirtækin í landinu leggja nú þegar hundruð milljóna króna í fræðslumál, þ.m.t. í vinnustaðanám fyrir iðn-og verknámsnemendur enda mikið í húfi að vel takist til.

Þar sem umhverfi iðn- og starfsnáms er hvað helst til fyrirmyndar, eins og í Þýskalandi og Austurríki, eru tengsl skóla, stjórnvalda og atvinnulífs náið og formgert. Vert er að geta þess að í Danmörku standa nú yfir umfangsmiklar breytingar á iðn- og starfsnámi þar sem markiðið er að auka gæði náms, kröfur og fjölda nemenda. Aðilar vinnumarkaðarins hafa komið að þeirri stefnumótun og framkvæmd. Munu breytingarnar taka gildi næsta haust.

Það má einnig leika sér að því að spyrja hvort hugtakanotkun og hugarfar standi eflingu námsins fyrir þrifum. Getur allt nám í framhaldsskóla sem endar með lokaprófi fallið undir stúdentspróf? Er raunhæft að tala um stúdent af félagsvísindabraut samhliða stúdent af húsasmíðabraut? Eru einhver tabú í umræðunni um eflingu verknámsins sem horft er framhjá?

Áhrifavaldarnir

Það er líka vert að hafa í huga að unga fólkið vill verknám en það er eins og kerfið bjóði þeim ekki upp í dans. Í könnun sem unnin var fyrir Samtök atvinnulífsins fyrr á árinu kom í ljós að um 37% þeirra sem fóru í bóknám í framhaldsskóla hefðu kosið að fara í verknám og að um 60% þeirra sem fóru í bóknám hefðu viljað taka eitthvað verknám samhliða bóknáminu. Í þessu felast mikil tækifæri og skýr skilaboð. Unga fólkið er til en kerfið og umhverfið ekki.

Á ýmsum fundum hefur sumum, bæði innan sem utan landssteinanna, verið tíðrætt um að ná þurfi til mömmunar, hinnar einu sönnu.  Það eru jú mömmurnar sem hafi mest áhrif á börnin og val þeirra í hvaða skóla skal haldið. Ekki ætla ég að leggja það á herðar hinnar íslensku móður eina og sér hvernig málum er fyrirkomið í iðn- og verknámi en það er hins vegar ljóst að áhrifavaldarnir eru nokkrir þegar komið er að vali á námsbraut í framhaldsskóla. Mestir eru foreldranir en líka systkini og vinir eins og fyrrnefnd könnun dregur fram. Einnig hafa náms- og starfsráðgjafar í grunnskólum sem og félagslíf framhaldsskóla áhrif á unga fólkið okkar. Jafnframt er ástæða til að minnast á nemendurna sjálfa og þá ábyrgð sem fylgir því að innrita sig gagnvart námi og skóla. Það hlýtur að vera áhersla í samfélaginu að nemendur nýti sér þetta góða tækifæri til náms og undirbúnings þátttöku á vinnumarkaði.

Mikilvægur tími til að hugleiða möguleika og tækifæri sem felast í hinum ýmsu námsbrautum framhaldsskóla – ekki síst í iðn-og starfsnámi er í kringum 8. og 9. bekk en einnig 10. bekk grunnskóla.  Foreldrar- og þá ekki bara mömmur, verða að vera meðvitaðir um áhrif sín og ábyrgð.  Því er ekki úr vegi að spyrja hvort þú, sem foreldri nemenda í efri bekk grunnskóla, sért búin að taka samtalið við barnið þitt? Er ekki rétt að nota tímann meðan að unga fólkið hlustar enn á okkur! 

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, forstöðumaður mennta- og nýsköpunarsviðs SA.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. nóvember 2014